Fréttir

EPN – Evrópudagur sjúkraliða

26 nóv. 2020

The European Council of Practical Nurses (EPN) eru Evrópusamtök sjúkraliða og er Sjúkraliðafélag Íslands eitt af aðildarfélögum þess. Markmið samtakana er meðal annars að efla hagsmuni sjúkraliða í Evrópu. Þann 26. nóvember ár hvert hafa aðildarfélögin haldið upp á daginn með margvíslegum hætti. Í ár er þessi dagur í skugga óvenjulegra og erfiðra tíma. Covid faraldurinn hefur lagst á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi álagi og markað djúp spor hvarvetna um allt samfélagið.

Sjúkraliðar standa vaktina

Á vormánuðum kom Covid faraldurinn sem lagðist á heilbrigðiskerfið með slíkum þunga að efnt var til bakvarðasveitar heilbrigðisstafsmanna. Um 230 sjúkraliðar gáfu kost á sér til starfa. Á haustmánuðum blossaði Covid faraldurinn upp aftur af slíku afli að færa þurfti Landspítalann á neyðarstig. Bakvarðasveitin var virkjuð á ný og voru sjúkraliðar ráðnir til starfa. Þessir atburðir hafa sem aldrei fyrr dregið fram mikilvægi framlags sjúkraliða og sýnt þeir eru algerlega ómissandi hlekkur í keðju heilbrigðisþjónustunnar. Þegar reynir á þanþol heilbrigðiskerfisins má sjá að það gegnir hlutverki sínu. Það virkar þegar allir leggja sig fram.

Teymisvinna

Heilbrigðisstarfsmenn um land allt takast á við Covid faraldurinn með samhentu átaki svo að gangverk heilbrigðiskerfisins virki. Þar hafa sjúkraliðar komið sterkir inn og sýnt með störfum sínum og færni að þeir eru reiðubúnir að takast á við krefjandi aðstæður og axla ábyrgð. Sjúkraliðar mæta viðfangsefnum sínum af fagmennsku og alúð, og sinna því sem kallað er nærhjúkrun með sambærilegum hætti og Florence Nightingale gerði á sínum tíma. Vegna mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu hafa stjórnendur viðast hvar áttað sig betur á faglegri hæfni sjúkraliða til að takast á við vandasöm verkefni. Það eru sjúkraliðar sem skipa teymin ásamt hjúkrunarfræðngum sem í sameiningu sinna þeim veiku.

Sérhæft starfsnám

Í gegnum árin hefur færni sjúkraliða til að sinna umönnun og hjúkrun tekið miklum breytingum samhliða gjörbreyttu námi, sem í dag er þriggja ára krefjandi starfsnám sem kennt er við framhaldsskólana. Þar læra nemendur bóklegar og verklegar heilbrigðisgreinar auk sérgreina í hjúkrun. Að námi loknu fá þeir starfsleyfi frá Embætti landlæknis og geta eftir útgáfu þeirra starfað sem sjúkraliðar. Sjúkraliðar sækja fram og nú er unnið markvisst að mótun nýrra námsleiða við Háskólann á Akureyri. Diplómanámapróf fyrir sjúkraliða sem mun í framtíðinni veita þeim betri færni til að takast á við sérhæfð hjúkrunarstörf samhliða aukinni ábyrgð.

Eftirsóttir um land allt

Sjúkraliðar eru burðastétt í heilbrigðiskerfinu og eftirsóttir um land allt. Atvinnumöguleikar eru því bæði miklir og óháðir búsetu. Vinnustaðir þeirra er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslunni og öðrum heilbrigðisstofnunum auk þess að vera leiðandi vinnuafl í heimahjúkrun.

Á þessum Evrópudegi sjúkraliða vil ég þakka þeim vinnuframlagið, ósérhlífni við að sinna þeim veiku, framúrskarandi þátttöku í bakvarðasveitina og faglega samvinnu og samskipti við aðrar heilbrigðisstéttir. Ég er bæði hrærð og stolt af því að eiga hlutdeild með sjúkraliðum, þessari öflugu fagstétt, og óska þeim innilega til hamingju með EPN daginn.

Sandra B. Franks,
formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Til baka