Fréttir

COVID-19 og efnahagsaðgerðir stjórnvalda

7 apr. 2020

Ríkið, sveitarfélög og lánastofnanir hafa gripið til fjölmargra aðgerða fyrir heimili og fyrirtæki til að draga úr áhrifum efnahagsáfallsins sem heimsfaraldur COVID-19 hefur haft í för með sér.
Hér að neðan má finna upplýsingar um helstu aðgerðir, svo sem laun starfsmanna í sóttkví, atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli og barnabótaauka. Einnig er þar að finna áherslur BSRB varðandi frekari aðgerðir sem gæti þurft að grípa til.

Hér má lesa upplýsingar um aðgerðir vegna COVID-19

BSRB hefur tekið saman lista yfir helstu áherslur bandalagsins þegar frekari aðgerðir verða undirbúnar.
Á þeim lista má meðal annars finna eftirfarandi atriði:

  • Úrræði til að tryggja afkomu foreldra sem geta ekki unnið í fjarvinnu en geta ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs barna sinna.
  • Úrræði til að tryggja afkomu einstaklinga sem eru frá vinnu vegna aukinnar áhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, eða eiga börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eru heima samkvæmt tilmælum læknis.
  • Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.
  • Að allir opinberir aðilar sem veita lán eða innheimta hvers kyns greiðslur komi til móts við einstaklinga með rýmri greiðslufrestum og leiti allra leiða til að koma til móts við þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum með sanngjörnum hætti.
  • Að stjórnvöld auki framlög sín til uppbyggingar almennra íbúða.
  • Að stjórnvöld leggi áherslu á jafna möguleika og jöfn tækifæri kvenna og karla í uppbyggingu vinnumarkaðsaðgerða og sköpun starfa.
  • Að stjórnvöld hraði uppbyggingu á Borgarlínu.
  • Að stjórnvöld auki framlög sín til viðhalds, endurbóta og byggingar húsnæðis heilbrigðisstofnana.
  • Að stjórnvöld leggi áherslu á fjárfestingu í menntun í greinum innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfisins.
  • Að allar aðgerðir stjórnvalda byggi jöfnum höndum á félagslegum stöðuleika sem og efnahagslegum.

Til baka