Fréttir

BSRB krefst launaleiðréttinga

15 jún. 2012

BSRB-logo - minnaStjórn BSRB hefur sent frá sér ályktun þar stjórnin fer fram á að félagsmenn sínir fái að njóta sömu launaleiðréttinga og þingmenn, ráðherrar, embættismenn og margir sveitastjórnarmenn hafa fengið á undanförnum vikum og mánuðum. í kjölfar ákvörðunar kjararáðs um að draga launalækkanir til baka í desember síðastliðnum var fjármálaráðaherra sent bréf þar sem óskað var eftir sambærilegri launaleiðréttingu fyrir félagsmenn BSRB. Í ályktuninni er sú krafa ennfremur ítrekuð.

Ályktunin er svo hljóðandi:

Stjórn BSRB ítrekar þá afstöðu sína að ákvörðun kjararáðs um að draga til baka launalækkanir hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum hljóti að vera fordæmisgefandi fyrir félagsmenn BSRB.

Undanfarið hefur það svo orðið sífellt algengara að hærra launaðir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga hafi fengið „leiðréttingar“ á launum sínum. Sveitastjórnarmenn, alþingismenn, ráðherrar, embættismenn og dómarar hafa nú nær allir fengið „leiðréttingar“ á launum sínum sem voru lækkuð í kjölfar hrunsins. BSRB ítrekar að margir af félagsmönnum bandalagsins hafa ekki fengið leiðréttingar á sínum fyrri kjörum og búa margir enn við skert starfshlutfall og „tímabundnar“ launalækkanir.

Af aðgerðum kjararáðs og hins opinbera að dæma eru umræddar tímabundnar launalækkanir þó aðeins tímabundnar fyrir ákveðinn hóp fólks. Það vill svo til að sá hópur virðist nær undantekningalaust vera hærra settir starfsmenn á meðan þeir launalægri búa enn við „tímabundna“ launalækkun eða skerðingu á starfshlutfalli.

Í upphafi árs sendi BSRB Oddnýju G. Harðardóttur, fjármálaráðherra, bréf þar sem þess var krafist að leiðrétting á kjörum félagsmanna BSRB myndi einnig koma til framkvæmda hið fyrsta. Sú krafa er hér með ítrekuð.

Til baka