Fréttir

Breytt verkaskipting heilbrigðisstétta með áherslu á störf sjúkraliða til umfjöllunar í landsráði

31 ágú. 2021

Heilbrigðisráðherra hefur falið landsráði um mönnun og menntun að fjalla um verkaskiptingu heilbrigðisstétta með áherslu á fela sjúkraliðum aukin verkefni og nýta þannig betur færni þeirra í verkefnum heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt hefur Landspítala verið falið að skipuleggja og bjóða námskeið í hermisetri fyrir sjúkraliða sem nýtist þeim í störfum á hágæsludeildum og vöknun á spítalanum.

Fjármögnun sérnáms til skoðunar
Heilbrigðisráðherra hefur falið landsráði að rýna hvernig fjármögnun sérnáms til heilbrigðisstofnana er háttað og skila tillögum til breytinga eftir því sem ástæða er til. Tillögurnar eiga að liggja fyrir í lok september.

Á tímum Covid-19 hefur mikið reynt á mönnun heilbrigðisþjónustunnar og umræða hefur skapast um hvort þekking og færni einstakra stétta nýtist sem skyldi og hvort tækifæri felist í mögulegri tilfærslu verkefna milli fagstétta. Meðal annars hefur sérstaklega verið rætt um mögulegar breytingar á verkaskiptingu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og jafnframt hvort finna megi leiðir til að efla sjúkraliða í starfi.

Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var stofnað fyrr á þessu ári. Ráðið hefur þegar tekið til skoðunar ýmis verkefni sem snúa meðal annars að því hvernig bæta megi ímynd og aðsókn í nám í heilbrigðisgreinum, bæta starfsumhverfi með reglubundnum námskeiðum fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana og fjölga námsstöðum heilbrigðisstétta þar sem þörf krefur. Ráðið vinnur einnig að því að skapa sameiginlegan vettvang hagsmunaaðila og byggja upp tengslanet þeirra sem þessi mál varða, til að efla mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu.

Gert er ráð fyrir að landsráð um mönnun og menntun skili ráðherra tillögum um mögulegar útfærslur á breyttri verkaskiptingu ólíkra fagstétta sem þjóni hagsmunum heilbrigðiskerfisins með áherslu á gæði, öryggi og hagkvæmni. Tillögunum skal skilað til ráðherra fyrir lok október næstkomandi.

Til baka