Fréttir

Benedikt: „Munurinn á lífeyrisgreiðslum minni en munurinn á lífeyrisréttindum gefur til kynna

19 jan. 2012

„Almennt eru greiðslur úr almennu lífeyrissjóðunum til ellilífeyris talsvert lægri en úr þeim opinberu. Hins vegar jafnast bilið mjög þegar tekið er tillit til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær stuðla að því að allir ná ákveðu lágmarki ráðstöfunartekna. Greiðslurnar frá TR eru skertar eftir því sem meira er greitt úr lífeyrissjóðum. Skattgreiðslur minnka einnig muninn því að þeir sem meiri tekjur fá eru jafnframt meiri tekjustofn fyrir ríkið,“ er meðal þess sem stendur í skýrslu Benedikts Jóhannessonar sem hann vann fyrir BSRB, KÍ og BHM og kynnt var á málþinginu „Samspil lífeyris og almannatrygginga – þín framtíð“ fyrr í dag.

Benedikt tekur dæmi af opinberum starfsmanni sem er með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun. Þegar hann kemst á lífeyri fær hann 216.600 kr. úr lífeyrissjóð. Hann fær 28.794 kr frá TR og þegar búið að greiða skatta sitja eftir 196.999 kr. Maður með sömu laun á almennum markaði fær 167.600 kr. úr sínum lífeyrissjóði og 57.171 kr. frá TR. Eftir skatta sitja eftir 184.656 kr. Það er 6,3% minna en opinberi starfsmaðurinn fær en þessi munur hefur gjarnan verið sagður rúmlega 20%.

Í skýrslunni kemur einnig fram fróðlegur samanburður á skuldbindingum ríkisins vegna félaga í LSR annars vegar og fólks sem ekki er í LSR hinsvegar. Samkvæmt ársskýrslu fyrir árið 2010 er áfallin skuldbinding vegna ellilífeyrisþega í B-deild 167 milljarðar króna hjá LSR. Þetta má sjá á mynd 1. Ef bætt er við mismun á reiknaðri „skuldbindingu hjá TR“ vegna þessa hóps og dregnar frá heildarskatttekjur vegna hópsins umfram þá sem eru í almennum sjóðum, fæst að í raun stendur eftir niðurstaða upp á tæpa 100 milljarða, þ.e. hugsa má dæmið sem svo að sjóðfélagar sjálfir fjármagni um 40% af lífeyrisskuldbindingu sinni.

„Skuldbinding“ Tryggingastofnunar að frádreginni „eign“ vegna skatttekna, vegna sambærilegs hóps á almennum markaði er 80 milljarðar króna. Þessi skuldbinding er hvergi færð til bókar fremur en tekjurnar sem ríkið mun hafa af lífeyrisþegar LSR og annarra opinberra sjóða.

Mynd1

Þegar Benedikt bar saman greiðslur til lífyrisþega sem fengu annarsvegar greitt úr opinberu sjóðunum og svo þeim almennu voru niðurstöðurnar ekki síður áhugaverðar. Þótt munurinn á greiðslum úr lífeyrissjóði geti verið tæplega 23% jafnast sá munur mikið, þegar tekið hefur verið tillit til greiðslna frá TR og skatta. Fyrir mann sem var með 250 þúsund krónur í launatekjur að jafnaði á starfsævinni er munurinn 5,2% í ráðstöfunartekjum á ellilífeyrisárum, af 300 þúsund krónum er munurinn rúmlega 6% og þegar launin eru komin í 350 þúsund munar 10% á ráðstöfunartekjum á ellilífeyrisaldri. Þannig hefur 22,6% munur á réttindum minnkað í 5-10% þegar áhrif skatta og greiðslna frá TR koma til.

Mynd 2

Af skýrslu Benedikts má sjá að tekjujafnandi áhrif greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og skattgreiðslna valda því að munur á ráðstöfunartekjum er mun minni en munur á lífeyrisréttindum gefur til kynna. Lífeyrisgreiðslur frá almennum lífeyrissjóði, sem eru um 23% lægri en greiðslur frá A-deild LSR, gefa ráðstöfunartekjur sem eru aðeins um 5%-10% minni hjá þeim sem er í almenna lífeyrissjóðnum. Jafnframt má líta svo á að á móti skuldbindingu vegna lífeyrissjóða ríkisins komi bæði sparnaður vegna almannatrygginga og meiri skatttekjur en ella
.

Til baka