Fréttir

Aukið jafnrétti kynjanna, meiri sanngirni og réttlæti í launum ávinningur af kröfum um launajafnrétti

6 feb. 2023

BSRB stóð fyrir fundi um virðismat starfa með formönnum og starfsfólki aðildarfélaganna fyrir helgi. Helga Björg Ragnarsdóttir og Rósa Björk Bergþórsdóttir hjá Jafnlaunastofu sveitarfélaga kynntu virðismat og virðismatskerfi, áskoranir við þróun virðismatskerfa og launasetningarmódel og leiddu að því loknu hópinn í verkefnavinnu.

Á fundinum koma fram að algengar mótbárur við kröfum um launajafnrétti séu að það sé of dýrt og raski jafnvægi. Helga Björg Ragnarsdóttir benti þó á að ávinningurinn sé mikill, ekki aðeins aukið jafnrétti kynjanna, það geti brotið upp kynskiptan vinnumarkað og feli í sér meiri sanngirni og réttlæti í launum.

Kynskiptur vinnumarkaður er ein meginskýringin á þeim launamun sem enn er til staðar

Jafnvirðisákvæði í íslenskri löggjöf í 65 ár

Jafnlaunaákvæði íslensku jafnréttislaganna byggir á jafnlaunasamþykkt ILO frá 1951 sem fullgild var hér á landi 1958. En í núgildandi lagaákvæði segir að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni.

Þrátt fyrir það að lög um launajafnrétti hafi verið í gildi í nærri 65 ár er launamunur enn töluverður hér á landi.

Kynskiptur vinnumarkaður

Kynbundinn launamunur er félagslegt fyrirbæri sem á sér sögulegar og menningarlegar rætur. Umönnunarskyldur kvenna í gegnum aldirnar hafi mótað áhugasvið, náms- og starfsval kvenna og söguleg kynhlutverk þróast yfir í staðalímyndir kynjanna. Ólaunuð vinna kvenna sem áður fór fram inni á heimilum er því minna metin en launuð vinna karla sem yfirfærist á störfin þegar þau flytjast út af heimilum og inn á mennta- og heilbrigðisstofnanir. Þannig er kynskiptur vinnumarkaður ein meginskýringin á þeim launamun sem enn er til staðar.

Réttlætis- og sanngirnissjónarmið

Sé tekið dæmi um 10% launamun kynjanna virðist prósentutalan kannski ekki ýkja há en fyrir konu með 750 þús. kr. í laun á mánuði þýðir það að hún fengi 75 þúsund krónum minna á mánuði en karlinn og 900 þúsund krónum minna á ári. Það gera 45 milljónir yfir starfsævina. Auk þess þýðir það að konur greiða lægri upphæðir í lífeyrissjóði og eru þar af leiðandi líklegri til að vera við fátæktarmörk á eldri árum en karlarnir.

Virðismat og virðismatskerfi

Virðismatskerfi eru kerfi til að meta með kerfisbundnum hætti innbyrðis vægi starfa út frá þeim kröfum sem störf gera til starfsfólks. Við matið er byggt á skilgreindum og fyrirfram ákveðnum forsendum. Markmið virðismatskerfa er að tryggja að laun séu ákvörðuð með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er.

Nánar má lesa um fundinn um virðismat starfa á heimasíðu BSRB.

Til baka