Ársskýrsla Vestmannaeyjadeildar 2023

Aðalfundur deildarinnar var haldinn í sal kvenfélagsins Líknar 26. október síðastliðinn. Á fundinn mættu átján sjúkraliðar, enginn gaf sig fram í að vera fundarstjóri, þannig að formaður sinnti þeirri skyldu.

Á fundinn til okkar mætti Sólrún Erla Gunnarsdóttir félagsráðgjafi og kynnti sín störf, en hún er tiltölulega nýbyrjuð í starfi hjá HSU hér í Eyjum og hefur bara mjög mikið að gera, virkileg þörf fyrir hana og hennar vinnu. Var erindi hennar mjög gott og gaf okkur góða innsýn í störf félagsráðgjafans.

Boðið var upp á veitingar frá Einsa Kalda; sveppasúpu og brauð og bjór, rauðvín og hvítvín með og síðan köku, konfekt og kaffi. Mjög gott!

Formaður las skýrslu stjórnar og fór yfir reikninga deildarinnar sem voru einróma samþykktir af viðstöddum. Okkur var reyndar tjáð af fyrrverandi formanni, að við hefðum átt að leggja fram tilbúna fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2023 – 2024 á aðalfundinum, en við munum bæta úr því fyrir aðalfund 2024.

Einn sjúkraliði, Andrea Guðjóns Jónasdóttir, gekk úr stjórn og í hennar stað var fengin Rakel Ýr Eydal Ívarsdóttir.

Þannig að núverandi skipan stjórnar er:
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir formaður
Berglind Ósk Sigvarðsdóttir
Donna Ýr Kristinsdóttir
Fjóla Sif Ríkharðsdóttir
Rakel Ýr Eydal Ívarsdóttir, meðstjórnendur

Óskað var eftir að einhver gæfi sig fram í að vera varafulltrúi á fulltrúaþingi og gaf Anna Guðný Laxdal Magnúsdóttir kost á sér í það.

Nokkrir sjúkraliðar voru leystir út með gjöfum í tilefni af því að 15 ár voru liðin frá útskrift.

Við héldum jólafund 23. nóvember, komum saman um 20 sjúkraliðar, borðuðum góðan mat, skiptumst á jólapökkum, spjölluðum og höfðum gaman.

Það fórst því miður fyrir að halda sérstaklega upp á evrópudag sjúkraliða þann 26. nóvember, en þó vöktum við margar athygli á okkur á samfélagsmiðlunum og síðan var prestunum hérna í Vestmannaeyjum færð peningaupphæð til að aðstoða þá sem lítið hafa á milli handanna.

Annars  var árið okkar hér í Vestmannaeyjum þannig;  þann 2. febrúar síðastliðinn átti deildin okkar 45 ára afmæli og héldum við upp á það með því að fara út að borða ásamt mökum. Var það virkilega fínt, en haft var þó á orði að þegar deildin yrði 50 ára, þá mætti ef til vill spá í að hafa það smá grand og leigja sal og gera eitthvað mikið í tilefni af því.

Síðan fór stór hópur sjúkraliða frá Vestmannaeyjum í nokkurra daga ferð til Amsterdam um miðjan apríl. Þar var hápunktur ferðarinnar að skoða Hogeweyk þorpið, ákaflega merkilegt og magnað að skoða og fá fræðslu um starfsemina þar. Þetta var aldeilis frábær ferð, mikið skoðað og verslað í þessari fallegu borg, farið út að borða og skemmta sér, mjög svo vel heppnað!

Við héldum nokkra almenna fundi yfir starfsárið og í maí síðastliðnum kom hann Gunnar hingað til Eyja og hélt fyrir okkur afar góðan fund um lífeyrismál.

Í maí útskrifuðust tveir sjúkraliðar frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og eru þær að sjálfsögðu kærkomin viðbót við okkar góða hóp, var þeim færð rós og sjúkraliðalykillinn okkar af því tilefni.

Í nóvember síðastliðnum var haldinn svokallaður starfadagur hjá Visku símenntunarmiðstöð, svona kynning á hinum ýmsu störfum, þá sérstaklega beint að efstu bekkjum grunnskóla og nemendum í framhaldsskólanum og voru sjúkraliðar að sjálfsögðu með þar, tókst þetta mjög vel.

Í dag eru 40 sjúkraliðar starfandi í Vestmannaeyjum, þeirra störf skiptast á þrjá staði; hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og eru þá á þrem starfsstöðvum; sjúkradeild, heilsugæslu og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum og síðan á dagdvölinni, sem er staðsett á Hraunbúðum en Vestmannaeyjabær rekur. Síðan eru nokkrir sjúkraliðar sem starfa á sambýlinu, en það er einnig rekið af Vestmannaeyjabæ.

Fyrir hönd stjórnar svæðisdeildar SLFÍ í Vestmannaeyjum
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir

Til baka