Ársskýrsla Suðurlandsdeildar 2022 – 2023

Ágætu sjúkraliðar.

Aðalfundur Suðurlandsdeildar SLFÍ var haldinn í Tryggvaskála þann 10. nóvember 2022. Það var mikið fagnaðarefni að geta loks hist og haldið fund, covid-tíminn með sínum fjöldatakmörkunum að baki.
Við tókum upp þann sið að félagsmenn skrái sig fyrirfram á fundinn, gert til að áætla betur veitingar. Við auglýstum og minntum á fundinn og uppskárum stóran fund með rúmlega 40 fundargestum.

Fundarstjóri var kosinn Kristín Á. Guðmundsdóttir og tók hún við fundinum. Breytingar á stjórn urðu þegar Elínborg Telma Ágústsdóttir gekk úr stjórn og Katrín Alexandra Helgudóttir tók við. Dögg Jónsdóttir gaf kost á sér áfram og fékk einnig kosningu. Í kjörstjórn fengu kosningu Dagný Ómarsdóttir og Kristín L. Guðmundsdóttir. Bráðamóttakan var tilnefnd í skemmtinefnd og kosin. Á fulltrúarþingi SLFÍ voru kosnar, Helga S. Sveinsdóttir og Margrét Auður Óskarsdóttir með 166 félagsmenn í deildinni. Nú hafa verið gerðar breytingar á fjármálum deildanna og þarf ekki skoðunarmenn reikninga lengur. Þær Guðrún Ágústsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir skiluðu sínum síðustu ársreikningum og þökkum við þeim fyrir langt starf sem skoðunarmenn.

Stjórn Suðurlandsdeildar SLFÍ starfsárið 2022 – 2023
tv. Margrét Auður Óskarsdóttir, Kolbrún Ásta Jónsdóttir,
Dögg Jóndóttir, Kristín L. Guðmundsdóttir, Helga Sigríður Sveinsdóttir og Katrín Alexandra Helgudóttir

Eftir fundinn var boðið upp á girnilega smárétti sem var gerður góður rómur að. Dr. Sigrún Sunna Skúladóttir flutti fræðsluerindi sem bar heitið ,,Hverju er mikilvægt að huga að tengt næringu við mjaðmarbrot,, Dr. Sigrún Sunna er hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Áhugavert og fræðandi erindi. Sigríður Einarsdóttir fræddi okkur síðan um sögu sjúkraskýla á Suðurlandi á síðustu öld.

Trúnaðarmannaráðstefna var haldin í byrjun október 2022. Þangað voru boðaðir allir trúnaðarmenn hjá félaginu. Trúnaðarmenn eru mikilvægir og eru tengiliðir við starfandi sjúkraliða og má segja að þeir séu með puttana á púlsinum, hvernig gangi á vinnustöðum og tilbúnir að liðsinna félagsmönnum.

Vinnustaðir héldu upp á Evrópudag sjúkraliða þann 26. nóvember. Minntu á sig og buðu jafnvel  samstarfsfólki upp á meðlæti með kaffinu.

Fræðslunet Suðurlands fór af stað með raunfærnismat fyrir sjúkraliða. Formaður var í undirbúningsnefnd og sótti fundi. Reyndur sjúkraliði var fenginn til að koma að námsmati. Vel tókst til við framkvæmdina og sóttu margir, vonandi mun þetta fyrirkomulag skila fleirum inn í sjúkraliðanámið.

Enginn sjúkraliði útskrifaðist í desember 2022 en einn á vori 2023 frá FSu.

Stjórnarfundir voru haldnir reglulega, um það bil fjórir fundir yfir árið. Önnur samskipti stjórnar fóru fram í gegnum netheima. Eins sótti formaður félagsstjórnarfundi bæði staðfundi og Teams fundi. Eftir reynsluna á Covid-tímanum hefur reynst vel að nota Teams fundi milli staðfunda í Reykjavík.

1. maí var loksins hægt að halda hátíðlegan. Verkalýðsfélögin á Suðurlandi standa að fundinum og kröfugöngu á undan. Félagar úr hestamannafélaginu Sleipni riðu á undan með íslenska fánann, síðan kom lúðrasveit og fylkti fólk sér svo í kröfugönguna með fána. Flott ganga og var svo boðið upp á kaffiveitingar á Hótel Selfoss, ræður og skemmtiatriði.

Daginn fyrir fulltrúaþingið í maí fór fram stefnumótunarvinna með framtíðarsýn félagsins í forgrunni. Allir kjörgengir fulltrúar tóku þátt og verður þessi vinna notuð og farið lengra með hana á næstu trúnaðarmannaráðstefnu.

Fjáröflun Suðurlandsdeildar við að sinna vorhreingerningu í tveimur orlofsíbúðum félagsins í Reykjavík gekk vel og fór féð inn á reikning deildarinnar.

Ég þakka öllum sem hafa lagt deildinni lið á árinu. Við vitum að gott er að leita með allt til skrifstofunnar á Grensásveginum og þökkum við fyrir það.

5. nóvember 2023,
Helga S. Sveinsdóttir, formaður Suðurlandsdeildar

Til baka