Ársskýrsla Suðurlandsdeildar 2020 – 2021
Ágætu sjúkraliðar.
Aðalfundur Suðurlandsdeildar dróst fram á árið 2021. Var fundurinn loks haldin 9. febrúar og fór fram í gegnum Zoom fjarfundabúnaði. Covid-19 faraldurinn hefur einkennt starfsárið og sett skorður á samkomuhald.
Fundarstjóri var kosinn Elínborg Telma Ágústsdóttir. Engar breytingar urðu á stjórn og gáfu þær Elínborg Telma Ágústsdóttir og Guðbjörg S. Stefánsdóttir kost á sér áfram.
Lyflæknisdeild HSU mun áfram skipa skemmtinefnd. Kjörstjórn skipa þær Þóra Bjarney Jónsdóttir, Guðbjörg S. Stefándóttir og Dagný Ómarsdóttir. Skoðunarmenn reikninga eru þær Guðrún Ágústsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir. Í Suðurlandsdeild eru 138 félagsmenn og sendir tvo fulltrúa á fulltrúarþing SLFÍ. Voru þær Helga S. Sveinsdóttir og Margrét Auður Óskarsdóttir kjörnar fulltrúar deildarinnar.
Félagsstarf á vegum Suðurlandsdeildar lá að mestu niðri vegna Covid-19. Þó fóru nokkrir vaskir sjúkraliðar á vordögum og tóku vorþrif í tveimur orlofsíbúðum félagsins í Reykjavík. Greiðsla frá Orlofsjóði fer síðan inn á einkareikning Suðurlandsdeildar og bíður þar þangað til hægt er að hóa sjúkraliðum saman og gera eitthvað skemmtilegt.
Á Evrópudaginn 26. nóvember reyna sjúkraliðar að minna á sig, en vegna samkomutakmarkanna var ekki í boði að vera með vöfflukaffi á HSU. En við settum upp litlu fánana okkar og buðum upp á myntu og ýmsa smáhluti á kaffistofunum.
Fundir stjórnar voru þrír á árinu, en samskipti á netinu því til viðbótar. Trúnaðarmannaráðsfundir voru tveir og voru þeir haldnir í fjarfundi á Zoom. Gekk þetta fundarform ágætlega. Félagsstjórn fundaði mánaðarlega og gengur vel að nota fjarfundaformið. Voru þessir tíðu fundir ekki síst til að upplýsa hvernig gengi með innleiðingu á “betri vinnutíma”.
Fræðslunetið felldi niður námskeið sem boðið var upp á. Það er nokkuð áhyggjuefni hversu dræm aðsókn er á námskeiðin. Covid-19 á líklega sökina. Ef sjúkraliðar skrá sig ekki á námskeið gæti verið hætta á að Fræðslunetið bjóði ekki upp á námskeið fyrir sjúkraliða. Við þurfum því að bretta upp ermar og sækja námskeið og muna að í kjarasamningum eru námskeiðsstundir metnar til launa. Hjá ríkinu eru fjögur þrep í boði og gera það 10% kauphækkun.
Engir sjúkraliðar útskrifuðust frá FSu á starfsárinu en þaðan verður væntanlega útskrifað á því næsta.
Ekki voru 1. maí hátíðarhöld vegna Covid-19.
Ég þakka öllum sem hafa lagt fram vinnu í þágu deildarinnar. Trúnaðarmenn eru lykilmenn þegar kemur að því að vera augu og eyru félagsins. Síðan er skrifstofan á Grensásveginum öllum opin og greiðir úr öllum vanda.
Helga S. Sveinsdóttir
formaður Suðurlandsdeildar