Ársskýrsla Austurlandsdeildar 2023

Núverandi stjórn skipa þær, Svava Hlín Hákonardóttir, formaður, Ester Rósa Halldórsdóttir, Guðrún Guðmundsdóttir, Júlíanna Þórbjörg Ólafsdóttir og Guðrún Tinna Steinþórsdóttir.

Fráfarandi stjórn skipuðu, Svava Hlín Hákonardóttir, formaður, Ester Brune, Oddrún Ósk Pálsdóttir, Guðrún Dúna Guðmundsdóttir og Guðrún Tinna Steinþórsdóttir.

Stjórnin hefur fundað sex sinnum á þessu tímabili og hefur vinnan aðallega farið í að skipuleggja vor- og haustfund.  Einnig höfum við rætt hvaða námskeið við vildum halda fyrir félagsmenn og höfum við lagt skipulagið að mestu í hendurnar á Austurbrú, en þó höfum við lagt áherslu á að námskeiðin væru verkleg.  Síðastliðinn vetur voru haldin tvö námskeið, annarsvegar sýnatökunámskeið sem haldið var 5. desember 2022 og síðan stómanámskeið, sem haldið var 7. febrúar 2023 og voru þau bæði mjög vel sótt.  Hafa komið fram hugmyndir um að þessi námskeið verði endurtekin, en þó er ekki komin nein tímasetning á það.

Vorfundurinn var haldinn á Randulfssjóhúsi og venju samkvæmt var boðið upp á veitingar.  Arnaldur Bárðarson prestur á Heydölum í Breiðdal flutti fræðsluerindi um sorg og áföll og mæltist það vel fyrir.

Myndir frá vorfundi

Lagt var upp með að halda tvö námskeið fyrir áramót og önnur tvö eftir áramótin, en líklega verður niðurstaðan sú að við náum einu námskeiði á þessu ári og þá þremur eftir áramótin.  Búið er að auglýsa eitt námskeið, sem ber heitið Líknar og lífslokameðferð og verður það haldið á Reyðarfirði þann 3. nóvember.

Eins og rætt var á vorfundinum síðastliðið vor þá á Austurlandsdeildin peninga í sjóði og var það niðurstaða vorfundarins að þessir peningar yrðu nýttir í þágu félagsmanna.  Unnið hefur verið að því að stofna kennitölu fyrir deildina þannig að hægt sé að koma þessum fjármunum á reikning í nafni deildarinnar. Kostnaður við það að stofna þennan reikning var 30.000 krónur. Ester sem var gjaldkeri félagsins hefur séð um þá vinnu.  Þetta hefur tekið sinn tíma en er alveg að hafast.

Í maí síðastliðnum útskrifuðust átta sjúkraliðar frá Verkmenntaskóla Austurlands og eins og venja er þá voru þeim færð rós og einnig fengu þeir afhentan Lykilinn. Þar sem okkur fannst vanta auka upplýsingar fyrir nýútskrifaða sjúkraliða þá höfðum við útbúið á A4 blaði allar helstu upplýsingar sem gott er fyrir nýútskrifaða sjúkraliða að hafa við hendina, eins og t.d leiðbeiningar við að sækja um leyfi til landlæknis o.s.frv.

Frá útskrift Verkmenntaskóla Austurlands vorið 2023,
t.v. Svava H. Hákonardóttir, formaður Austurlandsdeildar og t.h. Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA

Trúnaðarmannafundur var haldin 5. október í Reykjavík og var ágætis mæting frá okkur.

Við höfum beðið Sólveigu Friðriksdóttur frá Stöðvarfirði um að leiða fyrir okkur göngu og er hugmyndin að hún verði farin í nóvember en þar sem Sólveig hefur ekki getað gefið okkur ákveðna tímasetningu, og þar sem við þurfum einnig að reiða okkur á gott veður, þá getur verið að þetta verði auglýst með stuttum fyrirvara, en vonandi sjá sem flestar sér fært að mæta.

Eins og kom fram þegar núverandi stjórn tók við þá hafði verið ákveðið af fyrri stjórn að á tveggja ára fresti yrði endurnýjun í stjórninni. Stjórnarsetan myndi þa færast á milli staða og Vopnafjörður væri næstur í röðinni.  Það þýðir að nú verða kynntir tveir nýir stjórnarmenn og tveir úr sitjandi stjórn kveðja.  Þær sem koma nýjar inn í stjórnina koma báðar frá Vopnafirði og heita Júlíana Þorbjörg Ólafsdóttir og Ester Rósa  og bjóðum við  þær hjartanlega velkomnar í hópinn og hlökkum til samstarfsins.  Þær tvær sem láta af stjórnarstörfum í dag eru Ester Brune og Oddrún og eru þeim þökkuð góð störf í þágu félagsins.

Haustfundur var haldinn 25. október 2023 í Þórðarbúð á Reyðarfirði.  Boðið var upp á kaffi og með því og var svo haldið Pub Quiz og var það hin besta skemmtun.  Mæting var ágæt.  Þarna hittum við nýja stjórnarmeðlimi og fráfarandi stjórnarkonur voru kvaddar og þeim þökkuð góð störf.

Fyrir hönd stjórnar,
Svava Hlín Hákonardóttir

Til baka