Ársskýrsla Austurlandsdeildar 2021- 2022
Ársfundur var haldinn 10. nóvember 2021. Fráfarandi formaður, Helga Sveinsdóttir og Ásta Einþórsdóttir mættu á fundinn og kynntu fyrir nýrri stjórn verkefni Austurlandsdeildar. Á þessum fundi skiptu stjórnarmenn með sér hlutverkum sem hér segir,
Svava Hlín Hákonardóttir, formaður
Guðrún Guðmundsdóttir, ritari
meðstjórnendur eru þær Guðrún Tinna Steinþórsdóttir og Oddrún Ósk Pálsdóttir
Að tillögu fráfarandi stjórnar var ákveðið að eftir tveggja ára setu yfirgefi tveir meðlimir stjórnina og tveir nýir komi inn. Að öðrum tveimur árum liðnum munu svo hinir þrír, sem áfram sitja, yfirgefa stjórnina og þrír nýir koma þá inn í staðinn. Markmiðið með þessu er að tryggja að alltaf sé til staðar einhver reynsla í sitjandi stjórn.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því að ný stjórn tók við hefur stjórnin fundað átta sinnum. Í flestum tilvikum hafa stjórnarmenn hist á staðfundi en einnig hafa rafrænir fundir verið haldnir. Fundirnir hafa verið notaðir til að læra á þau verkefni sem fyrir hafa legið og má t.d nefna þar skipulag vorfundar sem haldinn var í Gallerí Kolfreyju á Fáskrúðsfirði. Þar var ný stjórn kynnt fyrir félagsmönnum og gamla stjórnin einnig kvödd. Boðið var upp á léttar veitingar og einnig var boðið upp á fyrirlestur um „Seiglu“, og var fyrirlesari Tinna K. Halldórsdóttir. Mæting á fundinn var góð eða um 30 manns og heppnaðist fundurinn vel og var það mál manna að gott væri að geta komið saman eftir hið alræmda Covid tímabil. Stjórnin skipti með sér verkum fyrir fundinn til að hann mætti heppnast sem best.
Aðalfundur deildarinnar var haldinn á Eskifirði 10. nóvember 2022. Soffía Sigríður Sigurbjörnsdóttir var fengin til að stýra fundinum og einnig kom Helga Sveinsdóttir, fyrrum formaður, á fundinn og kynnti fyrir félagsmönnum kjarasamninga. Boðið var upp á tælenskan mat og til skemmtunar mætti á fundinn Berglind Ósk Agnarsdóttir, sagnakona og lukkaðist það mjög vel, mikið hlegið og varð úr hin besta skemmtun.
Stjórnin kom sér saman um það að halda í þá hefð að bjóða upp á námskeið fyrir félagsmenn og var lagt upp með að haldin yrðu tvö námskeið að vori og tvö að hausti. Við leituðum til Austurbrúar varðandi uppsetningu á námskeiðum og hefur það samstarf gengið mjög vel. Valið var að reyna að hafa námskeiðin sem mest verkleg, þar sem aðgengi að slíkum námskeiðum er augljóslega erfitt fyrir okkur landsbyggðarfólk og því fylgir talsverður kostnaður. Sett voru upp tvö verkleg námskeið, annars vegar sýnatökunámskeið og hins vegar stómanámskeið, en þessi námskeið fóru þó ekki fram fyrr en á árinu 2023 og var mæting á þau bæði mjög góð. Einnig var stefnt að tveimur bóklegum námskeiðum en þau féllu bæði niður vegna slakrar þáttöku. Að fenginni þessari reynslu er það samdóma álit stjórnar að leggja áfram meiri áherslu á verklegu námskeiðin.
Stjórnin hefur tekið til umræðu á fundum innistæðu sem til er á bankareikning á nafni Austurlandsdeildar Sjúkraliðafélagsins. Rætt hefur verið hvernig þessari upphæð skuli ráðstafað en ekki hefur fengist niðurstaða í málið. Á aðalfundi var leitað eftir hugmyndum félagsmanna um hvernig upphæðinni skyldi ráðstafað, en eins og fyrr segir er ekkert ákveðið enn.
Formaður hefur á tímabilinu mætt á þrjá fundi, tvo í Reykjavík og einn á Akureyri.
Fyrir hönd stjórnar Austurlandsdeildar,
Svava Hlín Hákonardóttir
Guðrún Guðmundsdóttir
Ester Brune
Guðrún Tinna
Oddrún Ósk Pálsdóttir