Fréttir

Áróður hagsmunasamtaka stórfyrirtækja

3 des. 2021

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, svarar áróðri Samtaka atvinnulífsins sem haldið hafa fram að opinberir starfsmenn dragi þróttinn úr íslensku hagkerfi. Hún bendir á þá staðreynd að opinberir starfsmenn haldi mikilvægri almannaþjónustu gangandi og án þeirra myndi atvinnulífið stöðvast.

,,Hverjir eru þessir opinberu starfsmenn sem þessi hagsmunasamtök sem kostuð eru af fyrirtækjunum í landinu vilja fækka? Er þetta ekki fólk sem mætti segja upp í stórum stíl til að bæta samfélagið? Höfum við nokkuð við alla þessa sjúkraliða, sjúkraflutningamenn og aðra heilbrigðisstarfsmenn að gera? Erum við ekki með ofgnótt af slökkviliðsmönnum sem hætta lífi og limum til að bjarga okkur hinum?“, spyr Sonja í pistlinum.

Starfsfólkið í almannaþjónustunni eru einstaklingar sem helga störf sín þjónustu við almenning, bera uppi velferðarkerfið og gæta almannaöryggis. Öflug velferð og löggæsla hafa jákvæð áhrif á atvinnuþátttöku og þar með fyrirtækin í landinu. Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur unnið þrekvirki undir miklu álagi í á annað ár og hætt er við að framlínufólk hafi gengið svo nærri heilsu sinni að það hafi neikvæðar langtímaafleiðingar sem hefur ekki bara áhrif á það sjálft heldur einnig fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.

Launin hæst á almenna markaðinum
Auk þess að vega að opinberum starfsmönnum með þessum hætti hefur einnig verið fjallað um laun opinberra starfsmanna og látið að því liggja að þau séu hærri en annarsstaðar tíðkast. Þar er einnig talað gegn betri vitund. Því til staðfestingar þarf ekki að gera annað en að skoða samanburð á grunnlaunum starfsfólks innan heildarsamtaka launafólks; BSRB, ASÍ og BHM.

Þó að á myndinni séu aðeins grunnlaun sýna sambærilegar myndir með meðaltali reglulegra launa annars vegar og reglulegra heildarlauna hins vegar nákvæmlega sömu stöðu. Hvernig sem málið er skoðað eru launin alltaf hæst á almenna markaðinum.

Formaður BSRB bendir á að það sé ábyrgðarhluti að talsmenn stórfyrirtækja líti ekki eingöngu fram hjá þessu ómetanlega framlagi heldur reyni að stuðla að aukinni skautun í opinberri umræðu. Það gera þeir með því að gera því skóna að starfsfólk almannaþjónustunnar megi missa sín og eigi ekki að njóta launa í samræmi við þau verðmæti sem vinnuframlag þeirra skapar, byggt á rökum sem þeir vita að standast ekki skoðun.

Pistil formanns BSRB má lesa í heild sinni á heimasíðu samtakanna.

Til baka