Fréttir

Afgerandi meirihluti andvígur frekari einkarekstri

27 maí. 2021

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem unnin var fyrir BSRB og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á opnum veffundi BSRB um heilbrigðismál.

Alls vilja um 81,3 prósent landsmanna að rekstur sjúkrahúsa sé fyrst og fremst á hendi hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga. Örlítill minnihluti, um 1,6 prósent, vilja að sjúkrahús verði fyrst og fremst að vera rekin af einkaaðilum.

Rúmlega tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, um 67,6 prósent, vilja að starfsemi heilsugæslustöðva sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera. Aðeins 3,3 prósent vilja að heilsugæslustöðvarnar verði aðallega eða eingöngu starfræktar af einkaaðilum. Þá vill meirihluti landsmanna, um 58,4 prósent, að hjúkrunarheimili verði rekin af hinu opinbera, en aðeins um 3,8 prósent vilja rekstur þeirra aðallega eða eingöngu í höndum einkaaðila.

Könnunin var gerð í mars 2021. Alls svöruðu 842 meðlimir í netpanel
Félagsvísindastofnunar könnuninni, um 43 prósent þeirra sem fengu könnunina.

„Stjórnvöld hljóta að líta til þess og standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið og hefja vinnu við að vinda ofan af einkavæðingu undanfarinna ára og áratuga.“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Hér að neðan má sjá upptöku af kynningarfundinum.

Til baka