Fréttir

Aðgerðir í umhverfismálum verði réttlátar

28 ágú. 2020

Verkalýðshreyfingin verður að beita sér til þess að breytingar á vinnumarkaði, neysluvenjum og framleiðsluferlum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verði réttlátar og með hagsmuni launafólks í huga.

Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa á Íslandi er meiri en hjá hinum Norðurlöndunum og Þýskalandi. Hver Íslendingur losar 14,1 tonn á ári, en meðaltalið í Evrópusambandinu er 8,5 tonn. Þessi mikla losun hér á landi er að langmestu leiti bundin við nokkrar atvinnugreinar og vegasamgöngur. Þær atvinnugreinar sem losa hvað mest eru einnig mikilvægustu útflutningsgreinar landsins.

Nauðsynlegur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi mun hafa áhrif á störf, neyslumynstur og framleiðsluferla. Þar mun verkalýðshreyfingin beita sér fyrir því að farið verði í nauðsynlegar umbreytingar með áherslu á réttlát umskipti.

Beita sér gegn auknum ójöfnuði

Íslenska verkalýðshreyfingin er í samstarfi við norræna kollega og þýska verkalýðssambandið að móta áherslur hreyfingarinnar vegna aðgerða sem eru nauðsynlegar til að draga úr hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. BSRB, Alþýðusamband Íslands og Bandalag háskólamanna vinna sameiginlega að þeim hluta sem lýtur að Íslandi.

Verkalýðshreyfingin hefur þegar bent á mikilvægi þess að fjárfest verði í innviðum til að aðlagast þeim breytingum sem loftslagsbreytingar munu óhjákvæmilega valda, uppbygginu loftslagsvænna atvinnugreina og tæknibreytingum. Nota verður skattkerfið og beinar aðgerðir á vinnumarkaði til að koma í veg fyrir aukinn tekju- og eignaójöfnuð og til að skapa góð störf.

 

Lesa má frétt á síðu BSRB hér.

Til baka