Fréttir

Njótið dagsins, sjúkraliðar!

26 nóv. 2022

Dagur sjúkraliða er í dag, laugardaginn 26. nóvember, en hann er haldinn að frumkvæði European Council of Practical Nurses (EPN), sem eru Evrópusamtök sjúkraliða. Sjúkraliðafélag Íslands er eitt af aðildarfélögum EPN.

Áhrif á starfsumhverfið

Á hverju ári, þann 26. nóvember, halda aðildarfélögin í hverju landi upp á þennan dag með ýmsum hætti til að vekja athygli á störfum og viðfangsefnum stéttarinnar. Sjúkraliðar mynda næststærstu heilbrigðisstétt landsins. Atvinnumöguleikar eru bæði miklir og óháðir búsetu. Vinnustaðir þeirra er á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslunni og öðrum heilbrigðisstofnunum auk þess sinna sjúkraliðar kjarnastarfsemi heimahjúkrunar. Sjúkraliðar eru ein mikilvægasta samstarfsstétt hjúkrunarfræðinga og hefur mönnun stéttarinnar mikil áhrif á starfsumhverfi þeirra, auk annarra sem starfa í heilbrigðiskerfinu.

Sérhæft og hagnýtt starfsnám

Í gegnum árin hefur færni sjúkraliða til að sinna umönnun og hjúkrun tekið miklum breytingum samhliða gjörbreyttu námi, sem í dag er þriggja ára krefjandi starfsnám sem kennt er við framhaldsskólana. Þar læra nemendur bóklegar og verklegar heilbrigðisgreinar auk sérgreina í hjúkrun. Að námi loknu fá þeir útgefið starfsleyfi frá landlækni og geta þá starfað af við fagið í heilbrigðiskerfinu. Sjúkraliðar sækja fram og stendur þeim núna til boða að sækja 60 ECTS eininga framhaldsnám við Háskólann á Akureyri. Diplómanpróf fyrir starfandi sjúkraliða mun í framtíðinni veita þeim betri færni til að takast á við sérhæfðari verkefni samhliða aukinni ábyrgð.

Nærhjúkrun er þeirra fag

Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Styrkleikar stéttarinnar hafa ítrekað komið í ljós þegar takast þurfti á við Covid faraldurinn. Með samhentu átaki heilbrigðisstétta virkaði gangverk heilbrigðiskerfisins. Þar komu sjúkraliðar sterkir inn og sýndu með störfum sínum og færni að þeir eru reiðubúnir að takast á við krefjandi aðstæður og axla ábyrgð. Sjúkraliðar mæta viðfangsefnum sínum af fagmennsku og alúð, og sinna því sem kallað er nærhjúkrun með sambærilegum hætti og Florence Nightingale gerði á sínum tíma. Vegna mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu hafa stjórnendur viðast hvar áttað sig betur á faglegri hæfni sjúkraliða til að takast á við vandasöm verkefni.

Þakklæti og stolt

Á þessum Evrópudegi sjúkraliða vil ég þakka þeim vinnuframlagið, ósérhlífni við að sinna þeim veiku og faglega samvinnu og samskipti við aðrar heilbrigðisstéttir. Ég er stolt af því að eiga hlutdeild með sjúkraliðum, þessari öflugu fagstétt, og óska þeim innilega til hamingju með EPN daginn.

Njótið dagsins!

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka