Fréttir

3. föstudagspistill formanns

2 sep. 2022

Vikurnar virðast líða hratt þessa dagana. Það er annaðhvort kominn föstudagur eða mánudagur áður en við vitum af. Vikan á skrifstofunni hefur gengið nokkuð vel. Ennþá eru framkvæmdir í gangi sem miða að því að bæta móttökuna fyrir félagsmenn og vinnuaðstöðu starfsfólksins. Sem fyrr er alltaf heitt á könnunni hjá okkur fyrir alla sjúkraliða sem eiga hér leið hjá.

Það sem stendur upp úr vikunni er fundur okkar með forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Fundurinn gekk vel en þar ræddum við milliliðalaust við hana um stöðu sjúkraliða í heilbrigðiskerfinu, styttingu vinnuvikunnar og menntun. Komandi kjaraviðræður tóku hins vegar stærstan hluta af okkar tíma. Þar lögðum við sérstaka áherslu á að í þeim kjaraviðræðum yrði nú hugað að svokölluðum kvennastéttum.

Rannsóknir sýna að helsta ástæðan fyrir kynbundnum launamun er hinn kynskipti vinnumarkaður. Og sjúkraliðar líða svo sannarlega fyrir það, þar sem 98% sjúkraliða eru konur. Kynskiptur vinnumarkaður hefur haldið launum kvenna allt of lengi niðri en nú er lag að breyta því. Eftir þennan góða fund með forsætisráðherra ætlum við að leyfa okkur að vera bjartsýn á að skilningur fyrir sjónarmiðum félagsins sé fyrir hendi.

Annað sem við hreyfðum við á fundinum með forsætisráðherra var hvort það væri hugsanlega skynsamlegt að semja fyrst við opinbera starfsmenn en venjan hefur verið að almenni markaðurinn semji fyrst. Þetta er hins vegar leið sem ég tel að sé mikilvægt að ræða. Það getur verið afar kostnaðarsamt fyrir opinbera starfsmenn, eins og marga sjúkraliða, að bíða eftir að kjaradeilur á almenna markaðinum leysist, ekki síst í því verðbólgu- og vaxtaumhverfi sem við búum núna við.

Við áttum annan góðan fund í vikunni en að þessu sinni með lögmanni félagsins um þann ágreining sem er nú til staðar um framkvæmd stofnanasamnings við Heilbriðissstofnun Austurlands. Vegna þessa stendur nú til að funda með forsvarsfólki þeirrar stofnunar fyrir austan. Hér höfum við stigið fast til jarðar og munum ekki sætta okkur við kjararýrnun fyrir okkar fólk vegna uppfærslu á stofnanasamningi.

Þá erum við á skrifstofunni að setja saman kjarakönnun til að kanna hug og áherslur sjúkraliða fyrir næstu kjaraviðræður. Sömuleiðs er undirbúningur fyrir næsta fund trúnaðarmannaráðs hafinn, en fundurinn verður haldinn hér á Grensásveginum þann 13. október.

Góða helgi!

Til baka