Fréttir

Vel sóttur fræðslufundur um lífeyrismál

30 ágú. 2022

Nýverið bauð BSRB formönnum, stjórnarfólki og starfsfólki aðildarfélaga bandalagsins til fræðslufundar um lífeyrismál.

Lífeyrismál hafa verið til umræðu í Þjóðhagsráði og stjórnvöld hafa lýst því yfir að vilji þeirra standi til að boða til heildarendurskoðunar lífeyrismála í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Gerðar voru umfangsmiklar breytingar á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði árið 2017 og lífslíkur félagsfólks BSRB og sjóðfélaga í LSR og Brú er að aukast. Fundurinn var haldinn til að undirbúa frekari stefnumótun BSRB á sviði lífeyrismála og veita heildaryfirsýn yfir helstu þætti sem varða ávinnslu og réttindi félagsfólks til lífeyris.

Á fundinum kynnti Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða skipulag og uppbyggingu lífeyriskerfisins og lífeyrisréttinda.

Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá LSR fjallaði um breytingar á skipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði og Bjarni Guðmundsson sjálfstætt starfandi tryggingastærðfræðingur ræddi almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar og tryggingafræðilegar athuganir, lágmarksiðgjald og lágmarkstryggingavernd.

Þá flutti Ragnheiður Helga Haraldsdóttir sviðstjóri Áhættustýringarsviðs Brúar lífeyrissjóðs erindi um breytingar á lífslíkum Íslendinga sem og þróun örorku og áhrif þess á lífeyrisréttindi og Ásta Ásgeirsdóttir hagfræðingur hjá Landssamtökum lífeyrissjóða gerði grein fyrir nýlegum breytingum á danska lífeyriskerfinu sem tryggir snemmtöku lífeyris vegna starfa sem slíta fólki út fyrir aldur fram.

Algengast er að fólk hefji töku lífeyris við 67 ára aldur og getur tíminn eftir starfslok, eftirlaunaárin, verið álíka langur og tímabilið sem fólk er á vinnumarkaði, eða um 20-30 ár. Á heimasíður SLFÍ er að finna lífeyrisreiknivélar LSR, lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Þar er einnig að finna reiknivél lífeyris Tryggingastofnunar.

Til baka