Fréttir

Undirbúningi diplómanáms miðar vel

12 nóv. 2020

Diplómanám fyrir sjúkraliða hefst við Háskólann á Akureyri haustið 2021.

Vinna við mótun námsleiðarinnar, mótun nýrrar námsbrautarlýsingar og námskeiðalýsingar, hófst í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að Háskólinn á Akureyri myndi bjóða sjúkraliðum upp á diplómanám á háskólastigi.

Vinnuhópur var skipaður og hefur hann unnið hörðum höndum við að móta þetta nýja nám. Námsbrautarlýsing hefur verið mótuð og þann 2. október var henni skilað til Háskólans á Akureyri sem hefur hana nú í formlegu samþykktarferli. Gera má ráð fyrir að niðurstaða samþykktarferlisins liggi fyrir í byrjun desember. Þá verður loks hægt að auglýsa og kynna námið fyrir sjúkraliðum.

Þetta verður 60 eininga diplómanám fyrir sjúkraliða sem tekið verður á tveimur árum með vinnu. Byrjað verður að bjóða upp á nám í öldrunar- og heimahjúkrun haustið 2021 og svo ári síðar, 2022, er stefnt að því að bjóða upp sérhæfingu í samfélagshjúkrun með sérstakri áherslu á geð-og endurhæfingarhjúkrun. Þá er gert ráð fyrir að þeir sjúkraliðar sem stunda námið séu að vinna á stöðum sem tengjast sérhæfingu námsins.

Vert er að benda á að gerð nýrrar námsleiðar er þróunarferli og enn er verið að útfæra og skrifa námskeiðslýsingar og hæfniviðmið fyrir sérhæfingu námsins sem fer í gang árið 2022.

Starfslýsingar eru einnig í mótun, en þar verður áhersla lögð á að menntun stéttarinnar verði metin að verðleikum og að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu svari aukinni menntun sjúkraliða með nýjum starfslýsingum, nýjum starfsleiðum eða nýjum tækifærum til aukins starfsframa.

Til baka