Fréttir

Trúnaðarmannanámskeið 1. hluti

26 feb. 2019

Aðildarfélög BSRB standa reglulega fyrir námskeiðum fyrir trúnaðarmenn. Dagana 11. og 12. mars verður fyrsti hluti trúnaðarmannanámskeiðs Félagsmálaskóla alþýðu og mun námskeiðið fara fram í BSRB-húsinu að Grettisgötu 89. Námskeiðið er opið öllum trúnaðarmönnum og þeim félagsmönnum sem áhuga hafa á að taka að sér trúnaðarstörf.
Námskeiðið er sérstaklega sniðin að þörfum þeirra sem hafa nýlega tekið að sér hlutverk trúnaðarmanns eða annars konar trúnaðarstarf á vegum síns félags.

Á námskeiðinu er meðal annars farið ítarlega í hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Einnig er hlutverk trúnaðarmannsins rætt og hvernig hann eigi að vinna með umkvörtunarefni.
Hvert er hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera? Hvert er hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum. Hvar getur trúnaðarmaður aflað sér upplýsinga um túlkanir kjarasamninga og önnur mál sem koma inn á hans borð. Hvernig eiga trúnaðarmenn að taka á móti umkvörtunum og vinna úr þeim.

Skráning er rafræn á heimasíðu Félagsmálaskóla alþýðu.

Til baka