Fréttir

Þakklæti er mér efst í huga

24 des. 2020

Kæru sjúkraliðar!

Á viðburðaríku ári sem nú er að líða yfirskyggði Covid-19 faraldurinn allt annað. Hann kom í veg fyrir að hægt væri að kynna tímamótasamninga um betri vinnutíma á fundum með sjúkraliðum, ræða innihald þeirra, innleiðingarferlið og fá útskýringar. Faraldurinn reyndi einnig verulega á starfsþrek okkur sjúkraliða. Mörg okkar, voru og eru, í framlínunni. Aðrir sjúkraliðar standa vaktina í störfum sem ekki eru síður mikilvæg. Ég er mjög stolt af því hve frábærlega sjúkraliðastéttin hefur staðið sig í Covid faraldrinum. Hann hefur svo sannarlega beint athyglinni að því hversu mikilvægir sjúkraliðar eru í heilbrigðiskerfinu.

Faglega var árið mjög árangursríkt fyrir stéttina. Við gerðum tímamótasamninga um betri vinnutíma, samkomulag um fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða, samþykkt var baráttumál okkar um ný fagráð heilbrigðisstofnana þar sem allar fagstéttir eiga aðkomu, og undir lok árs var loksins kynnt ný i stefnumótun um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu sem félagið hefur barist fyrir. Innan félagsins lauk tveggja ára stefnumótunarferli með því að fulltrúaþing félagsins okkar samþykkti ítarlega stefnumótandi ályktanir í öllum helstu málaflokkum.

Tímamótasigrar

Fyrir mig var mikil reynsla og lærdómsríkt að leiða samninga sjúkraliða í fyrsta sinn sem formaður. Kröfur sjúkraliða voru mjög skýrar og tóku mið af vilja félagsmanna um styttri vinnuviku og að 80% starf í vaktavinnu yrði metið sem fullt starf. Kjaraviðræðurnar stóðu lengi yfir, eða í rúmt ár. Krafan um vinnutímabreytingar var krefjandi verkefni sem leitt var af okkur í forystu BSRB. Það tók okkur langan tíma að fá viðsemjendur til að átta sig á samstöðu aðildarfélaga. Það tókst loks með því að bregða verkfallsvopinu á loft. Þá loksins skildu viðsemjendur alvöru málsins og samstöðuna í okkar röðum.

Í markvissri samvinnu við BSRB náðust svo tímamótasamningar um styttingu vinnuvikunnar. Þá samninga á sagan eftir að skrá sem kaflaskil í verkalýðsbaráttu hér á landi. Samningarnir fela í sér að vinnuvikan mun nú fara úr 40 stundum niður í 36 stundir, og í sumum tilvikum niður í 32 stundir. Með þessu tekst okkur að  bæta lífskjör með bættum launum en ekki síður með betri vinnutíma sem gerir fjölskyldufólki kleift að samræma betur vinnutíma og fjölskyldulíf. Í ofanálag náðum við sjúkraliðar um 24% launahækkun á samningstímanum. Annar sögulegur sigur fólst svo í því að korteri fyrir verkfall náði forysta sjúkraliða fram bókun um fagháskólanám fyrir stéttina. Í því eru alger tímamót í menntasögu sjúkraliða.

Langþráð háskólanám

Eftir að bókunin um fagháskólanámið náðist fram gekk félagið mjög fast eftir því að fyrirheit hennar yrðu innleidd eigi síðar en nú þegar. Ég átti ótal fundi og samtöl við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og rektor Háskólans á Akureyri auk þingmanna og margra starfsmanna ráðuneytanna. Félagsstjórn sjúkraliða sendi frá sér mjög skýra ályktun um málið. Þessi harða, og á köflum ýtna, barátta okkar bar þann árangur að okkar ágæti menntamálaráðherra lýsti afdráttarlausum stuðningi við fagháskólanám fyrir sjúkraliða á Alþingi. Sjúkraliðar nutu ekki síðri stuðnings hjá heilbrigðisráðherra. Skömmu síðar samþykkti ríkisstjórnin að fagháskólanám fyrir sjúkraliða verði við Háskólann á Akureyri haustið 2021. Næsta vers er að koma stjórnendum stofnana í skilning um að þeir verða að svara bættri menntun sjúkraliða með aukinni ábyrgð í starfi.  Þeir hafa verið dragbítar á að kerfið nýti til fullnustu þá auðlind sem felst í sífellt menntaðri og færari sjúkraliðum.

Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða við Háskólann á Akureyri er mjög mikilvægt fyrir þróun stéttarinnar. Sjúkraliðar eru stétt í mikilli sókn sem hefur alltof lengi verið vanmetin af kerfinu. Námið mun í senn skerpa faglega ásýnd stéttarinnar, efla færni sjúkraliða, og gera þeim kleift að axla aukna ábyrgð í starfi og taka að sér aukin stjórnunarhlutverk. Diplómanámið gerir starfið líka meira aðlaðandi fyrir ungt fólk, því nú er í fyrsta skipti boðið upp á samfellda námsleið fyrir sjúkraliða frá framhaldskólastigi yfir á háskólastig.

Ný fagráð

Ég hef lengi barist fyrir því að sjúkraliðar fái tækifæri til jafns við aðrar hjúkrunarstéttir til að móta hjúkrunarstefnu á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Eitt af mínum fyrstu verkum sem formaður var því að leggja fram formlega beiðni um aðild sjúkraliða að hjúkrunarráði Landspítalans. Það bar því miður engan árangur. Sjúkraliðar svöruðu með því að taka upp harða baráttu fyrir því að tekin yrði upp ný fagráð með aðild allra fagstétta, þ.á.m. sjúkraliða. Það var því mikið fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti í byrjun sumars lög um nýju fagráðin og leiðrétti þar með tímaskekkjuna sem gömlu hjúkrunarráðin stóðu fyrir. Nýju lögin voru að þessu leyti í fullu samræmi við áherslur okkar sjúkraliða. Í framtíðinni verður því ekki lengur gengið framhjá sjúkraliðum þegar hjúkrunartefnan er mótuð. Þeir hafa loksins öðlast viðurkenningu sem burðarstétt í heilbrigðiskerfinu.

Stefna um mönnun og menntun

Á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands sem haldið var í haust mælti ég fyrir ítarlegri mönnunarstefnu sjúkraliða. Mönnunavandinn hefur verið eitt af vandamálum heilbrigðiskerfisins. Í dag skortir sjúkraliða, og sá skortur mun verða enn átakanlegri á næstu árum með mikilli fjölgun aldraðra Íslendinga. Verkefni stéttarinnar við hjúkrun og umönnun aldraðra munu því vaxa hröðum skrefum. Sjúkraliðar eru einfaldlega hin vaxandi hjúkrunarstétt, sem mun bera uppi heimahjúkrun og hjúkrunarheimili í framtíðinni og nú þegar sinnum við nærhjúkrun á sjúkrahúsum landsins.

Á heilbrigðisþingi 2020 kom fram að ákveðið hefur verið að leggja fram á Alþingi þingsályktun um sérstakt landsráð sem verður ráðgefandi samráðsvettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta. Landsráðið er í algjöru samræmi við þær óskir sem Sjúkraliðafélagið kom á framfæri í árslok 2018. Þar skapast loksins vettvangur til að greina mannaflaþörf til framtíðar, ekki síst hina miklu þörf sem verður fyrir sjúkraliða með fjölgun aldraðra. Um leið skapast rými til að bregðast við fyrirsjáanlegum skorti með réttum aðferðum, s.s. aukinni menntun og betri starfskjörum.

Árið 2020 er ár tímamótasigra sem jafnframt mun marka sögu stéttarinnar. Á þessum tímamótum er mér þakklæti efst í huga og vil ég því þakka ykkur, mínir kæru sjúkraliðar, samstarfið á árinu, og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Til baka