Fréttir

Styttri vinnuvika kemur fólki af hamstrahjólinu

28 feb. 2019

Stytting vinnuvikunnar er lykilatriði í því að minnka álag og auka lífsgæði fjölskyldufólks, sem líður stundum eins og það sé hamstur í hjóli þegar það reynir að samræma vinnuna og fjölskyldulífið. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í Háskólanum á Akureyri.

Rannsóknin var unnin af Andreu Hjálmsdóttur, lektor við Háskólann á Akureyri, og Mörtu Einarsdóttur, sérfræðingi á Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Í henni var rætt við alls 38 einstaklinga sem voru ýmist giftir eða í sambúð, í að minnsta kosti 60 prósent starfshlutfalli og með barn eða börn undir 17 ára aldri. Rætt var við fólkið í kynskiptum hópum með 6 til 8 í hverjum hópi.

Þátttakendur í rannsókn Andreu og Mörtu færðu streituna sem þeir upplifa í sínu daglega lífi ekki alltaf í orð, en margir töluðu um sífellt samviskubit sem þeir glíma við, togstreitu um forgangsröðun og þá slæmu tilfinningu sem fylgir því að ná ekki að sinna fjölskyldunni sem skyldi vegna álags í vinnunni, eða öfugt.

,,Það er þessi togstreita sem er svolítið svona erfið finnst mér og sífellt samviskubit yfir því að það er eiginlega þannig að ef ég á að sinna vinnunni minni eins mikið og ég vildi og þyrfti þá er ég ekki að hugsa nógu vel um fjölskylduna.“
– Þátttakandi í rannsókninni

Talsverður munur var á því hvernig karlar og konur skilgreina álag í sínu daglega lífi. Konur áttu það frekar til að tala um álag tengt heimilisstörfum og barnauppeldi á meðan karlar tengdu streitu eingöngu við vinnuna. Í rannsókninni eru þeir þættir sem auka álagið hjá þessu fjölskyldufólki dregnir saman í þrjá flokka; vinnuna, heimilisstörfin og barnauppeldið.

Styttri vinnutími minnkar álagið

Þátttakendur í rannsókninni nefndu ýmsar leiðir til að minnka álag í daglegu lífi, en það sem oftast var nefnt var að annar aðilinn minnkaði við sig launaða vinnu til að geta betur sinnt börnum og heimilinu. Í öllum tilvikum var þar um konur að ræða. Það rímar við aðrar rannsóknir sem sýna að konur taka enn á sig meiri ábyrgð á barnauppeldi og heimilisstörfum en karlar.

„Ákall þátttakenda okkar eftir styttri vinnuviku kom skýrt fram í öllum umræðuhópunum og þar var enginn munur á körlum og konum,“ segir meðal annars í niðurstöðum rannsóknarinnar. „Margir viðmælenda töldu að stytt vinnuvika gæti verið mikil gæfa fyrir lífsgæði fjölskyldufólk.“

Niðurstöður rannsakendanna eru skýrar: „Miðað við niðurstöður okkar má ætla að stytting vinnuviku, án launaskerðingar, myndi koma sér vel fyrir barnafólk. Þar sem íslenskir karlar vinna mikla yfirvinnu má ætla að stytting vinnuvikunnar kæmi sér einkar vel fyrir þá og samspil fjölskyldu og atvinnulífs, ekki síst vegna þess að þeim er frekar ætlað fyrirvinnuhlutverk en konum. Eftir að feðraorlof í allt að þrjá mánuði var fest í lög reyndist það körlum auðveldara að fá viðurkenningu á orlofstöku og ætla má að slík viðhorfsbreyting gæti átt sér stað með styttingu vinnuvikunnar.“

Grein með niðurstöðum Andreu og Mörtu má finna á vef Íslenska þjóðfélagsins:

„Mér finnst ég stundum eins og hamstur í hjóli“: Streita í daglegu lífi fjölskyldufólks á Íslandi“

Til baka