Fréttir

Stefnumótandi ályktanir 32. fulltrúaþings

26 maí. 2023

32. fulltrúaþing ályktar um mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands haldið 25. maí 2023 krefst þess að stjórnvöld bregðist við alvarlegum mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins.

Mönnunarvandinn er ein brýnasta áskorun samtímans, þ.s. mannfjöldi á Íslandi hefur aukist um 40 þúsund á fimm ára tímabili. Fjöldi eldri borgara hefur aukist um 19% á sama tímabili, en það er sá hópur sem eðli málsins samkvæmt leitar mest til heilbrigðiskerfisins.

Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heil­brigðis­kerfinu og sinna í miklum mæli allri nærhjúkrun. Þegar brest­ir mynd­ast vegna manneklu eru það einkum sjúkraliðar sem mæta aukinni ábyrgð og álagi. Vandinn er augljós. Stöðug fækk­un heilbrigðisstarfsfólks síðustu ár hef­ur aukið álagið gríðarlega á þeim sem enn starfa við fagið.  

Sjúkraliðafélagið skorar á stjórnvöld að fara í átak og fjölga námsleiðum og þar með nemendum sem stunda nám í heilbrigðistengdum greinum. Sömuleiðis þurfa stjórnvöld að tryggja betri starfsaðstæður og bætt launakjör svo ekki verði enn frekara brotthvarf úr heilbrigðisstéttum. 

32. fulltrúaþings ályktar um endurmat á virði kvennastarfa

Launamunur kynjanna er enn til staðar á íslenskum vinnumarkaði þrátt fyrir áratuga baráttu gegn slíku misrétti. Launamunurinn er ekki náttúrlögmál heldur mannanna verk, sem endurspegla alvarlegt vanmat á virði kvennastarfa og veldur því að konur eru að meðaltali með 10% lægri laun en karlar.

Kona með 650.000 kr. í laun á mánuði tapar tæpri milljón á ári vegna þessa. Á starfsævi eru þetta um 45 milljónir kr. að núvirði. Til viðbótar verða áunnar lífeyrisgreiðslur kvenna lægri en karla. Sé litið til Sjúkraliðafélags Íslands, þar sem eru rúmlega 2000 konur, kemur í ljós að þessi hópur er hlunnfarinn um rúman 2 milljarðar á ári vegna kynferðis.

Fulltrúaþing sjúkraliða fagnar tilraunaverkefni stjórnvalda þar sem virðismat starfa er tekið til endurskoðunar með sérstakri áherslu á menntun, hæfni og eiginleika starfsfólks í kvenna störfum, sem hingað til hafa verið vanmetin.  Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krefst þess að kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum ljúki og launamismununin verði leiðrétt í komandi kjarasamningum. Það er ekki einungis sanngjarnt, heldur styður við áform stjórnvalda um að konur og karlar búi við launajafnrétti og skilar einnig aukinni hagsæld fyrir samfélagið allt.

Til baka