Starfshópur um menntun sjúkraliða og fjölgun í stéttinni
20 des. 2019
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp um menntun sjúkraliða. Hlutverk starfshópsins er að fjalla um menntun og viðbótarmenntun sjúkraliða sem leitt geta til fjölgunar útskrifaðra sjúkraliða.
Á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála þann 15. ágúst síðastliðinn kynnti heilbrigðisráðherra tillögur sínar um starfshópa til að fjalla um menntunarmál heilbrigðisstétta. Á fundinum voru einnig rædd áform um samstarf heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis á þessu sviði, meðal annars með stofnun starfshóps um menntun sjúkraliða og tillögur um viðbótarmenntun á tilteknum sviðum.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
Eygló Ingadóttir, án tilnefningar, formaður
Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneytinu
Kristjana Guðbergsdóttir, tiln. af Landspítala
Sigurlaug Stefánsdóttir, tiln. af Sjúkrahúsinu á Akureyri
Sigríður Zoëga, tiln. af Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
Birna Ólafsdóttir, tiln. af Sjúkraliðafélagi Íslands.
Starfsmaður hópsins er Brynhildur Magnúsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. mars 2020.