Starfshópar um mönnun heilbrigðiskerfis
29 ágú. 2019
Ríkisstjórnin samþykkti í gær að setja á fót starfshópa þar sem heilbrigðis-, mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytis munu koma saman til að kanna leiðir til að tryggja betri mönnun í heilbrigðiskerfinu og yfirfara menntun heilbrigðisstétta. Ráðherranefnd ákvað þetta í mánuðinum og fylgir þar með eftir stefnumótun frá því í febrúar.
Starfshópunum er ætlað að finna leiðir til að fjölga starfsfólki í heilbrigðisstéttum, auka starfshlutafall og snúa við atgerfisflótta.
Fjallað verður um menntun hjúkrunarfræðinga og leiðir til að fjölga í hópi þeirra sem útskrifast ár hvert, á sama hátt verður fjallað um menntun sjúkraliða og einnig um möguleika á viðbótarmenntun þeirra á ákveðnum sviðum og enn fremur verður fjallað um sérfræðinám lækna og aðgerðir m.a. til að skoða viðurkenningu sérnáms hérlendis í öðrum löndum.
Ríkisstjórnin ákvað einnig að skipa sérstakan starfshóp á vegum heilbrigðisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem m.a. á að leggja mat á raunhæfar leiðir til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Markmiðið er að koma fram með tillögur sem leitt geta til þess að heilbrigðisstarfsfólk haldist í starfi og að þeir sem farið hafa í önnur störf leiti til baka í heilbrigðisþjónustuna.
Starfshóparnir eiga að skila af sér tillögum í desember.
Frétt um málið má lesa á vef Stjórnarráðs Íslands; Mönnun heilbrigðisþjónustunnar