Fréttir

Skora á stjórnendur að að þróa nýjar starfsleiðir

24 sep. 2020

Ályktun Fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um að fela sjúkraliðum aukna ábyrgð. 

29. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands lýsir ánægju með að stjórnvöld hafa nú loksins orðið við kröfum sjúkraliða um að setja á stofn fagháskólanám fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Sjúkraliðar hafa lengi barist fyrir að stéttin eigi kost á samfelldri námsleið frá framhaldskólastigi yfir á háskólastig. Diplómanám á háskólastigi svarar í senn þorsta sjúkraliða eftir meiri menntun, skerpir faglega ásýnd stéttarinnar og gerir sjúkraliðum kleift að takast á herðar ábyrgðarfyllri störf og gegna auknu stjórnunarhlutverki í heilbrigðisgeiranum. Þetta 60 eininga fagnám á háskólastigi skapar um leið nýtt aðdráttarafl fyrir stéttina gagnvart ungu fólki sem er að velja sér lífsstarf.

Þingið lýsir ánægju með frumkvæði Háskólans á Akureyri og góðan stuðning bæði heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra við stofnun nýrrar námsleiðar. Sjúkraliðar binda vonir við að námið stuðli að fjölbreyttum leiðum til mismunandi sérhæfingar, eins og á sviði öldrunar- og heimahjúkrunar, geð- og samfélagshjúkrunar og í framtíðinni á fleiri sviðum.

Þingið lýsir fullum stuðningi við störf nýs verkefnahóps sem undirbýr námið undir stjórn Arnrúnar Höllu Arnórsdóttir aðjúnkt við Háskólann á Akureyri. Mikilvægt er að verkefnahópurinn hraði störfum sínum svo sjúkraliðar fái sem fyrst yfirsýn yfir þá möguleika sem ný námsleið á háskólastigi býður upp á. Þingið væntir þess að 1. nóvember liggi fyrir bæði heildarsýn yfir tveggja ára fjarnám við Háskólann á Akureyri og ítarleg lýsing allra námskeiða sem sjúkraliðum munu standa til boða.

Sjúkraliðar eru fagstétt sem hafa sýnt mikinn metnað til að auka faglega getu í gegnum mjög mikla þátttöku í sérhæfðum námskeiðum Framvegis – miðstöð símenntunar, og á fyrri árum í gegnum sérnám við Fjölbraut í Ármúla. Sjúkraliðar eru vannýtt auðlind innan heilbrigðisgeirans og ein leið til að vinna gegn mönnunarvanda kerfisins er að nýta betur getu þeirra og menntun. Fulltrúaþingið átelur harðlega að þrátt fyrir meira en áratugagamlar leiðbeiningar frá vinnuhópi Embættis landlæknis um að heilbrigðisstofnanir samræmi starfslýsingar og nýjar starfsleiðir hærra menntunar- og færnistigi sjúkraliða hefur ekkert áorkast í þeim efnum.

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands skorar því á stjórnendur innan heilbrigðiskerfisins að þróa nýjar starfsleiðir, ný tækifæri til starfsframa og fela sjúkraliðum aukna ábyrgð og viðeigandi stjórnunarstörf í samræmi við nýja námsleið á háskólastigi og síhækkandi menntastig sjúkraliða gegnum símenntun. Þingið felur forystu félagsins að taka upp viðræður við yfirvöld heilbrigðismála og stjórnendur  heilbrigðiskerfisins til að fylgja þessu fast eftir.

Fulltrúaþingið felur forystu Sjúkraliðafélagsins að ráðast í átak til að kynna sjúkraliðum nýja möguleika sem opnast með diplómanámi á háskólastigi jafnskjótt og námskrár og lýsing námskeiða liggja fyrir.

Samþykkt þann 10. september 2020.

Til baka