Fréttir

Sex­tíu prósenta af­sláttur af hverri krónu

22 jún. 2022

Að hækka laun kostar peninga. En hversu mikla? Kíkjum aðeins á það.

Byrjum að líta á stefnu stjórnvalda sem segir að: „aðgerðir sem miða að því að auka tekjur lægri tekjuhópa og þeirra verst settu eru líklegri til að skila sér hratt og örugglega út í hagkerfið.“
Þessi yfirlýsing stjórnvalda er afskaplega mikilvæg enda segir hún margt.

Eftir því sem fólk hefur lægri tekjur, því hærra hlutfalli eyðir það af tekjum sínum í kaup á nauðþurftum. Lágtekju- og millitekjufólk á þess ekki völ að verja launahækkunum sínum í annað. Launahækkun lágtekjufólks fer þannig strax út í hagkerfið aftur og skapar þar með aukin umsvif og auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð.

Við þurfum að átta okkur á að með launahækkun frá ríkinu verða til bæði skatttekjur og umsvif sem myndast á móti þeirri gjaldaaukningu.

Hið opinbera styðst iðulega við svokallaðan „ríkisfjármálamargfaldara“ sem segir til um hversu mikið þjóðartekjur aukast við hækkun ríkisútgjalda. Þessi margfaldari er um 0,8 á Íslandi samkvæmt Seðlabankanum. Það þýðir að séu útgjöld ríkissjóðs aukin um 1.000 kr. þá leiðir það til 800 kr. aukningar á landsframleiðslunni. Þannig verða til hin svokölluðu „margfeldisáhrif“.

Aukin ríkisútgjöld með hækkun launa til lágtekju- og millitekjufólks, skapa þannig margfeldisáhrif upp á um 0,8 af hverri krónu samkvæmt ríkisfjármálamargfaldara Seðlabankans.

Ríkissjóður tekur að jafnaði um þriðjung af því sem verður til í hagkerfinu. Samkvæmt Samtökum atvinnulífsins fara um 33% af verðmætum sem verða til í hagkerfinu til hins opinbera.

Þannig að af hverjum 100 kr. sem fara í launahækkanir til lágtekju- og millitekjufólks verða til margfeldisáhrif upp á 80 kr. og af þeim tekur ríkið um þriðjung, eða 25 kr. Áhrifin á ríkissjóð vegna aukinna umsvifa eru því ekki 100 kr. heldur 75 kr. hvað þetta varðar.

Þessu til viðbótar tekur ríkið líka sinn tekjuskatt af launum fólks og um fimmtung af því sem eftir stendur af launum vegna kaupa á nauðþurftum. Og er það aðallega vegna virðisaukaskatts sem er hérlendis einhver sá hæsti í heiminum.

Þetta leiðir til þess að af hverjum 100 kr. sem starfsmaðurinn fær tekur ríkið rúmlega 35% til baka vegna tekju- og neysluskatta, eða um 35 kr. Þessar krónur bætast við þá fjárhæð sem ríkið fær vegna margfeldisáhrifa nýrra ríkisútgjalda sem eru um 25 kr. Hér eru tölur varlega áætlaðar.

Niðurstaðan er því sú að af 100 kr. útgjaldaauka ríkissjóðs vegna hærri launa lág- og millitekjufólks fara rúmlega 60 kr. aftur til ríkisins. Því má segja að ríkissjóður fái um 60% „afslátt“ af hverri krónu sem fer í vasa þessa fólks.

Við þetta er því að bæta að hér hefur ekki verið rætt um möguleika fólks á betri lífsgæðum við hærri tekjur, heldur einungis er dregin fram sú hagfræðilega nálgun að með hverri krónu sem fer úr ríkissjóði í launahækkun til lágtekju- og millitekjufólks, fara um 60% af hverri krónu til baka aftur í ríkissjóð.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. júní 2022

Til baka