Fréttir

Mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu nauðsynlegar

7 jún. 2022

BSRB telur nauðsynlegt að ráðist verði í mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu. Koma þurfi til móts við ýmsa hópa vegna aukins kostnaðar. Þótt megi fagna framlagningu frumvarps ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu telur bandalagið frekari aðgerða þörf og gerir athugasemdir við útfærslur frumvarpsins. Þetta kemur fram í umsögn BSRB.

Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar  stendur til að greiða fjölskyldum sérstakan 20.000 króna barnabótaauka þann 1. júlí næstkomandi en BSRB leggur til að barnabótaaukinn verði frekar greiddur mánaðaralega út árið 2022. Auk þess er lagt til í frumvarpinu að mánaðarlegar greiðslur almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega verði hækkað um 3 prósent frá 1. júní og að grunnbætur húsaleigubóta hækki um 10 prósent. Vísitala leiguverðs hefur hins vegar hækkað um 20 prósent frá ársbyrjun 2018 og vísitala neysluverðs sömuleiðis. Því telur BSRB að hækka hefði þurft grunnbæturnar mun meira til að mæta betur leigjendum, eða í tæplega 39.000 krónur. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að frítekjumörk miðað við árstekjur hækki um 3 prósent frá og með 1. janúar 2022. Það er jákvæð breyting en skerðing vegna tekna verður áfram 11 prósent í stað 9 prósenta áður. Skerðingarhlutfallið var hækkað árið 2020 til að draga úr útgjöldum úr kerfinu og krefst BSRB að það verði lækkað aftur.

Umsögn BSRB má lesa hér.

Til baka