Lífsgæði aukast með styttingu vinnutíma
26 ágú. 2019
Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út nýja skýrslu í tengslum við tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu. Þar er að finna niðurstöður rýnihópa og viðtala við starfsmenn og maka þeirra. Helstu niðurstöður eru þær að þátttakendur upplifðu meiri lífsgæði og leið betur bæði í vinnunni og heima fyrir eftir tólf mánuði af styttingu vinnuvikunnar borið saman við líðanina áður en tilraunaverkefnið hófst. Skýrsla um niðurstöður viðhorfskannana og hagrænna mælinga í tengslum við styttingu vinnuvikunnar kom út í apríl.
Nýja skýrslan byggir á eigindlegri rannsókn en gögnum var safnað með rýnihópum og viðtölum á þeim vinnustöðum sem tóku þátt á tímabilinu mars/apríl 2017 til maí 2018. Að mati stjórnenda vann starfsfólk hraðar, lagði meira af mörkum, tók styttri pásur og var upplifun þeirra að meira væri um samstarf og samhjálp. Heildarvinnutími styttist samkvæmt tímaskýrslum en þó vann starfsfólk áfram yfirvinnu í afmörkuðum einingum vegna álagstoppa og undirmönnunar.
Starfsfólk talaði um að tíminn eftir vinnu nýttist betur í að sinna fjölskyldu, vinum og tómstundum. Mikil ánægja var með styttingu vinnutíma á föstudögum, sérstaklega hjá þeim sem hættu klukkan tvö á föstudögum en almennt fannst viðmælendum helgarnar lengjast.
Vaktavinnustarfsfólk upplifði meiri fjölskyldusamveru en áður. Starfsfólk í dagvinnu taldi sig þó oftar en áður fara frá hálfloknum verkefnum í lok dags og halda áfram daginn eftir.
Stjórnendur töldu sig eiga erfiðara með að stytta vinnutímann borið saman við almenna starfsmenn að sex mánuðum liðnum en að tólf mánuðum liðnum var algengara að þeir styttu vinnutímann. Viðtöl við einstæða foreldra leiddu í ljós að þeir ættu auðveldara með að sameina vinnu og einkalíf, halda betra dagskipulagi, sinna börnum og stytta ferðatíma til og frá vinnu eftir að vinnutími var styttur. Upplifun um að vera orkumeiri þegar vinnudegi lauk jókst.
Viðtöl við maka starfsmanna leiddu í ljós að stytting vinnutímans hafði létt álagi af fjölskyldum þeirra, sérstaklega þar sem ung börn væru á heimili. Þá var upplifunin almennt sú að dregið hefði úr streitu á morgnana og seinnipartinn og að maki væri ekki eins þreyttur eftir vinnudaginn.
Þeir vinnustaðir sem tóku þátt í tilraunaverkefninu eru Embætti ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun, Þjóðskrá og Lögreglan á Vestfjörðum. Viðtölin og hópavinnan fóru fram áður en stytting vinnutíma hófst, að sex mánuðum liðnum og eftir ár. Þátttakendur í rýnihópunum voru sextíu talsins (33 konur og 27 karlar) og tóku flestir .þátt þrisvar sinnum. Alls tóku tíu stjórnendur með mannaforráð þátt í rýnihópunum, fimm konur og fimm karlar. Þátttakendur af landsbyggðinni voru 24 og þátttakendur í Reykjavík 36.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu – skýrsla um niðurstöður rýnihópa og viðtala við starfsmenn og maka þeirra