Fréttir

Leiðbeiningar um viðbrögð ef starfsfólk fer í sóttkví eða smitast

10 mar. 2020

Hér eru nokkur mikilvæg atriði varðandi kórónaveiruna (COVID-19) og leiðbeiningar
um viðbrögð ef starfsfólk fer í sóttkví eða smitast.
Sjúkraliðar eru þeir heilbrigðisstarfsmenn sem sinna nærhjúkrun og því er afar
mikilvægt að þeir fylgi tilmælum landlæknis um ónauðsynleg ferðalög til skilgreindra
áhættusvæða. Komi til þess að sjúkraliðar fari í sóttkví eða veikist gildir eftirfarandi:

    1. Samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á Íslandi, yfirvalda í öðru landi eða stofnunar
greiðast meðaltalslaun skv. gr. 12.2.6. í kjarasamningi. Fjarvistir á meðan á dvöl í sóttkví
stendur teljast þó ekki til veikinda, en starfsfólk nýtur launagreiðslna samkvæmt
framansögðu.
Athugið að gert er ráð fyrir að ef starfsfólk sem getur sinnt starfi sínu heiman geri það í
sóttkví, enda er viðkomandi ekki veikur. Það er tilefni til að hvetja starfsfólk til að taka tölvu
með sér heim (ef um slíkt starf er að ræða) þar sem sóttkví getur skollið á fyrirvarlaust.

    2. Fari starfsfólk í sóttkví að eigin frumkvæði er um orlof eða launalausa fjarveru að ræða,
nema viðkomandi, í samráði við vinnuveitenda, geti sinnt vinnuskyldum sínum að heiman.

    3. Ef starfsmaður veikist er greitt samkvæmt almennum ákvæðum veikindakafla, hvort sem um
Covid-19 smit er að ræða eða önnur veikindi.

    4. Að öðru leyti skal fylgja leiðbeiningum embættis landlæknis og fara eftir viðbragðsáætlun
hlutaðeigandi ráðuneytis og stofnunar.

Á heimasíðu Landlæknis https://www.landlaeknir.is/koronaveira/ eru upplýsingar
uppfærðar jöfnum höndum. Þar er farið yfir hvernig veiran breiðist út og helstu
einkenni hennar og hvernig draga má úr sýkingarhættu. Þar segir meðal annars að
almenningur geti með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel
að persónulegu hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og
munn og það að forðast að heilsa með handabandi hefur lykilþýðingu við að forðast
smit og fækka smitleiðum.

Kórónaveiran (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð
og smitleiðir áþekkar. Einkenni eru helst hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta
o.s.frv. Veiran getur valdið alvarlegum veikindum hjá þeim sem veikir eru fyrir og lýsir
það sér með sýkingum í neðri öndunarfærum og lungnabólgu, sem koma oft fram
sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.

Hafið samband við 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) ef grunur vaknar
um smit.  Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á
bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum
í síma.

Til baka