Fréttir

Kosið um boðun verkfalla

17 feb. 2020

 

Kæru sjúkraliðar

Kjarasamningar sjúkraliða runnu út um mánaðamótin mars – apríl 2019 hjá öllum viðsemjendum Sjúkraliðafélagsins,
síðan eru liðnir 11 mánuðir og lítið hefur þokast í samningsátt þrátt fyrir tugi funda.

Trúnaðarmannaráð Sjúkraliðafélagsins fundaði þann 13. febrúar og þar var ákveðið að kjósa um boðun verkfalla.
Kosningin hefst kl.13.00 mánudaginn 17. febrúar og stendur yfir til kl. 20.00 þann 19. febrúar.

Ályktun Trúnaðarmannaráðs
Sjúkraliðafélags Íslands, 13. febrúar 2020

Trúnaðarmannaráð Sjúkraliðafélags Íslands bendir á þá ömurlegu staðreynd að sjúkraliðar hafa verið samningslausir í 11 mánuði.
Þetta gerist þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda um bætt vinnubrögð, þar sem samningur átti að taka við af samningi.
Trúnaðarmannaráðið krefst þess að gengið verði frá samningum strax og styttingu vinnuvikunnar, án skerðingar á þeim kjörum sem við nú þegar höfum.
Sjúkraliðar hafa fengið nóg og fela stjórn félagsins að skipuleggja baráttu fyrir réttlátum kjörum með okkar sterkasta vopni, verkföllum.
Trúnaðarmannaráð SLFÍ

 

Skipulag verkfallanna verða svona:
Sjúkraliðar sem eru ríkisstarfsmenn kjósa um verkföll sem verða með eftirtöldum hætti:
LSH og HSN dagana

  •  9. og 10. mars, á morgunvöktum
  • 17. og 18. mars, á morgunvöktum
  • 24. og 26. mars, á morgunvöktum
  • 31. mars og 1. apríl á morgunvöktum
  • Frá og með 15. apríl hefst síðan allsherjarverkfall á öllum stofnunum ríkisins (hjá öllum sjúkraliðum sem starfa hjá ríkinu, hafi samningar ekki náðst.
  • Um þessi verkföll kjósa allir sjúkraliðar sem starfa hjá ríkinu. Leiðbeiningar um kosninguna koma síðar.

Um leið og kosningin hjá ríkisstarfsmönnum fer fram munu sjúkraliðar sem starfa hjá Akureyrarbæ kjósa um verkföll á öldrunarheimilunum og öðrum stofnunum bæjarins, þ.s. sjúkraliðar sem starfa á kjarasamningi sveitarfélaganna, en þar hefur ekkert þokast í samkomulagsátt. Í þessari kosningu taka einungis þátt þeir sjúkraliðar sem starfa hjá Akureyrarbæ.
Verkföllin þar verða með eftirfarandi hætti:

  • 9. mars, frá kl. 8.00 og fram til miðnættis 10. mars
  • 17. mars frá kl. 8.00 og fram til miðnættis 18. mars
  • 24. mars allan sólarhringinn
  • 26. mars allan sólarhringinn

Allsherjarverkfall hefst kl. 8.00 þann 15. apríl.
Félagar okkar í Kili stéttarfélagi munu einnig vera í verkföllum á sömu dögum og sjúkraliðar á HSN og hjá Akureyrarbæ.
Mjög mikilvægt er að félagsmenn taki þátt í atkvæðagreiðslunni þ.s. krafist er 50% þátttöku svo kosningin teljist lögmæt.
Þetta bréf er sent til upplýsinga á alla sjúkraliða í Sjúkraliðafélagi Íslands, hvort sem þeir muni taka þátt í verkfallinu eður ei. Eins og fram kemur eru fyrirhugaðar aðgerðir á ákveðnum stofnunum og beinast gegna ríkinu og sveitarfélögunum.

Með baráttukveðjum,

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka