Kjaramál

Kjaramál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni Sjúkraliðafélags Íslands. Sjúkraliðar taka laun og önnur starfskjör eftir þeim kjarasamningum og stofnanasamningum sem félagið gerir við viðsemjendur sína.

Kjaramálanefnd annast í samráði við félagsstjórn undirbúning kröfugerðar vegna kjarasamninga. Kjaramálanefnd á að fylgjast með efnahags- og kjaramálum og veita félagsmönnum upplýsingar um þau efni. Nefndin getur veitt einstökum félagsdeildum umboð til að annast að hluta eða öllu leyti kjarasamninga á sínu starfssvæði. Í þeim tilvikum sem umboð til samningagerðar er veitt, skal fulltrúi sem kjaramálanefnd tilnefnir vera viðkomandi samninganefnd til aðstoðar og fulltingis. Kjaramálanefnd skal hafa samráð við svæðisdeildir eða aðra þá sem ætla má, að hafi einhverja sérstöðu innar SLFÍ, við undirbúning kröfugerðar. Kjaramálanefnd tekur ásamt félagstjórn ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalla.

Kjararáð er skipað þremur fulltrúum sem eiga sæti í kjaramálanefnd og er formaður sjálfkjörinn í ráðið í umboði kjaramálnefndar. Undirskrift kjarasamninga er gerð með fyrirvara um samþykki félagsmanna að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Við breytingu á kjarasamningi á samningstímabilinu er ekki skylt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu. Heimilt er, með samþykki kjaramálanefndar og stjórnar félagsins að afgreiða kjarasamninga á almennum félagsfundi.

Hvenær má endurskoða stofnanasamninga?
Heimilt er hvorum aðila um sig, stofnun eða fulltrúum Sjúkraliðafélags Íslands, að óska eftir endurskoðun stofnanasamnings verði umtalsverðar breytingar á forsendum hans. Sem dæmi um breytingar á forsendum má nefna breytingar í miðlægum kjarasamningi og breytingar á umfangi, hlutverki eða starfsemi stofnunar. Kröfur um verulegan sparnað í rekstri stofnunar þýða í reynd breyttar forsendur og því er alls ekki óeðlilegt að fulltrúar stofnunar fari fram á endurskoðun stofnanasamnings við slíkar aðstæður.
Í kjarasamningum segir að stofnanasamninga skuli að jafnaði endurskoða á tveggja ára fresti. Komist samstarfsnefnd að samkomulagi um breytingar á stofnanasamningi skal fella þær breytingar inn í gildandi stofnanasamning og staðfesta hann þannig breyttan.

Til baka