Fréttir

Jólakveðja formanns

21 des. 2018

Kæru félagar! Árið sem nú er að líða hefur verið viðburðaríkt í okkar sögu og margs er að minnast.

Ein af merkustu forystukonum verkalýðshreyfingarinnar, Kristín Á. Guðmundsdóttir, lét af formennsku Sjúkraliðafélagsins eftir meira en 30 ára vakt. Við kunnum henni öll bestu þakkir fyrir frábær störf sem við munum lengi njóta og minnast.

Það varð hlutskipti mitt að taka við keflinu af Kristínu, og því hlutverki mun ég gegna af alúð og elju, og reiða mig á þann mikla mannauð sem er að finna í okkar röðum. Gildir einu hvort um er að ræða starfsmenn á skrifstofu, formenn deilda, trúnaðarmenn félagsins, eða einstaka félagsmenn, allir hafa jafnan reynst reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til stuðnings við félagið og félagsmenn. Það eru sannarlega forréttindi að fá að vinna með því öfluga fólki sem fyllir raðir okkar góða félags.

Ég hef á stuttum formannsferli lagt mig fram um að heimsækja vinnustaði vítt og breitt um landið. Því mun ég halda áfram á nýju ári. Við munum þétta raðirnar og ganga samstillt til kjarasamninga á næsta ári. Þeir geta orðið erfiðir og þá skiptir öllu máli að hafa sem nánust tengsl á milli forystu og félagsmanna. Það er ánægjulegt hversu duglegir félagsmenn eru að hafa samband við mig og skrifstofuna, til að láta í ljósi viðhorf sín og koma með uppbyggjandi hugmyndir. Þannig á lifandi og kraftmikið félag að vera. Í þeim anda erum við nú að vinna að nýrri heimasíðu félagsins þar sem félagsmenn munu eiga kost á að sækja inn á “mínar síður” upplýsingar um stöðu hvers og eins varðandi félagstengd efni. Það á í senn að auðvelda þeim samskiptin og gera meðvitaðri um starfskjör og réttindi.

Félagið mun áfram leggja mikla áherslu á að upplýsa samfélagið um mikilvægi starfanna sem sjúkraliðar gegna, einnig verður þrýst á stjórnvöld að bjóða upp á fagháskólanám fyrir sjúkraliða bæði til að laða að nýtt fólk inn í greinina og til að gefa okkur sem fyrir eru kost á viðbótarmenntun til að bæta hæfni okkar og kjör. Félagið hefur verið í fararbroddi þeirra sem berjast fyrir styttingu vinnuvikunnar og sú krafa, ásamt áherslunni á bætt starfskjör, og aukinn skilning á mikilvægi sjúkraliða í heilbrigðiskerfinu verður okkar leiðarljós á komandi ári.

Kæru sjúkraliðar!

Um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegrar jólahátíðar og gifturíks komandi árs vil ég þakka ykkur öllum fyrir frábært samstarf og stuðning á árinu sem er að líða.

Með jólakveðju,

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka