Grein í Morgunblaðinu um viðbótarmenntun sjúkraliða
6 ágú. 2024
„Viðbótarmenntun sjúkraliða hefur nú fengið formlega viðurkenningu með nýrri reglugerðarbreytingu sem heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur staðfest. Þetta markar mikilvægan áfanga fyrir sjúkraliða og heilbrigðisþjónustu á Íslandi, og hefur forysta Sjúkraliðafélags Íslands gegnt lykilhlutverki í að ná þessum áfanga. Viðbótarmenntun sjúkraliða felur í sér 60 ECTS eininga diplómapróf frá Háskólanum á Akureyri. Námið er stundað samhliða vinnu og eru kjörsviðin tvö, annars vegar öldrunar- og heimahjúkrun og hins vegar samfélagsgeðhjúkrun.
Ávinningur diplómanámsins
Diplómanám sjúkraliða hefur margvíslega kosti og gefur sjúkraliðum tækifæri til að bæta sérhæfingu sína og takast á við viðameiri verkefni innan heilbrigðisþjónustunnar. Rannsóknir frá Norðurlöndunum benda til þess að aukin menntun sjúkraliða leiði til betri heilsufarslegra niðurstaðna, aukinnar starfsánægju og minni starfsmannaveltu. Í Noregi sýna rannsóknir að sjúkraliðar með diplómanám upplifa meiri starfsánægju og minni líkur eru á að þeir íhugi að hætta störfum. Í Danmörku hefur diplómanám haft jákvæð áhrif á heilsufarslega þróun sjúklinga, þar sem sjúkraliðar með aukna menntun eru betur í stakk búnir til að leiða umbætur í gæðum umönnunar.
Áskoranir í framkvæmd
Forysta Sjúkraliðafélagsins hefur átt gott og lausnamiðað samstarf við heilbrigðisráðherra, fulltrúa ráðuneytisins og Háskólans á Akureyri til að formfesta framtíðarsýn stéttarinnar þar sem sérstaklega er tekið tillit til viðbótarmenntunar sjúkraliða. Umsagnarferli Samráðsgáttar um breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi leiddi ekki til neinna breytinga. Hins vegar í umsögnum fagfélaga var stuðningur við viðbótarmenntun sjúkraliða skýr. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands og Iðjuþjálfafélag Íslands fögnuðu diplómanámi sjúkraliða sérstaklega og bentu á að viðbótarnámið myndi bæta þjónustu og auka gæði umönnunar á Íslandi. Landspítalinn fagnaði einnig auknum valmöguleikum sjúkraliða til framhaldsmenntunar og benti á að aukin menntun sjúkraliða væri mikilvæg til að efla þekkingu, hæfni og ábyrgð þeirra í starfi.
Mikilvægur áfangi
Unnið var úr umsögnum og hefur breyting á reglugerð um sjúkraliða verið staðfest. Hún felur í sér viðurkenningu á viðbótarmenntun sjúkraliða við Háskólann á Akureyri og gerir þeim kleift að takast á við flóknari verkefni og takast á hendur aukna ábyrgð í störfum sínum.
Þetta er mikilvægt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þar sem þörfin fyrir þjónustu sjúkraliða og einkum þeirra sem hafa bætt við sig sérhæfingu fer vaxandi. Fjöldi eldri borgara er að aukast og mun tvöfaldast á næstu 25 árum, sem kallar á aukna þjónustu í öldrunar- og heimahjúkrun. Einnig hafa geðræn vandamál aukist undanfarna áratugi, sem eykur þörfina fyrir sérhæfingu í samfélagsgeðhjúkrun.
Forysta Sjúkraliðafélags Íslands hefur með þrautseigju og fagmennsku leitt þetta verkefni til lykta og tryggt að diplómanám sjúkraliða fái þá viðurkenningu og virðingu sem það á skilið. Þáttur í þessari vegferð er að tryggja framgangskerfi innan heilbrigðisstofnana þar sem menntun sjúkraliða er metin til launa og starfsframa. Það mun stuðla að betri heilbrigðisþjónustu, bættri heilsu sjúklinga og aukinni starfsánægju sjúkraliða.“
Birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2024, höfundur Sandra B. Franks