Fréttir

Fagráðin marka söguleg kaflaskil hjá stéttinni

22 sep. 2020

Ályktun Fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um fagráð

29. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands fagnar samþykkt Alþingis á nýjum lögum sem mæla fyrir um stofnun nýrra fagráða við níu helstu heilbrigðisstofnanir landsins. Samhliða verða gömlu hjúkrunarráðin og læknaráðin lögð niður. Í þessu felst fullnaðasigur fyrir sjónarmið sjúkraliða sem hafa barist fyrir breytingum af þessu tagi.

Þingið fagnar einnig skýrum yfirlýsingum heilbrigðisráðherra á Alþingi um að fagráð „skuli myndað af þeim fagstéttum sem starfa innan viðkomandi stofnunar.“ Samkvæmt nýju lögunum er heilbrigðisráðherra lögð sú skylda á herðar að setja reglugerð um skipan og hlutverk ráðanna. Í yfirlýsingu ráðherrans felst því trygging fyrir því að sjúkraliðar muni eiga fulla aðild að nýju fagráðunum. Nýju lögin marka því kaflaskil í sögu stéttarinnar þar sem þau tryggja að í gegnum nýju fagráðin munu sjúkraliðar í fyrsta sinn koma að mótun hjúkrunarstefnu á jafnræðisgrundvelli gagnvart öðrum hjúkrunarstéttum.

Fagráðin marka því söguleg kaflaskil í þróun stéttarinnar, skerpa faglega ásýnd hennar og undirstrika enn frekar það mikilvæga hlutverk sem sjúkraliðar gegna nú sem burðarstétt í heilbrigðiskerfi landsmanna.

Fulltrúaþingið telur að fagráðin færi íslenska heilbrigðiskerfið nær nútímakröfum um teymisvinnu, samvinnu fagstétta og þverfaglega, heildræna nálgun í vinnubrögðum innan heilbrigðisgeirans. Þau miða meðal annars að því að sérhver fagstétt, þar á meðal sjúkraliðar, geti miðlað af reynslu sinni og menntun til að tryggja gæði og samfellu í þjónustunni. Fulltrúaþingið lýsir eindregnum vilja til samstarfs við heilbrigðisráðuneytið, stjórnendur heilbrigðistofnana og aðrar fagstéttir til að starf nýju ráðanna fari hnökralaust og með jákvæðum hætti af stað sem allra fyrst.

Sjúkraliðafélagið skorar jafnfram á heilbrigðisráðherra að hraða gerð reglugerðar um skipan og fyrirkomulag fagráðanna svo unnt sé að koma þeim til starfa sem fyrst. Samtímis hvetur þingið stjórnendur heilbrigðisstofnana til að taka þegar til óspilltra mála við að undirbúa stofnun þeirra svo fagráðin megi virkja jafnskjótt og reglugerð heilbrigðisráðherra liggur fyrir.

Fulltrúaþingið felur forystu Sjúkraliðafélagsins að undirbúa stofnun fagráða með þrennum hætti:

  • Í fyrsta lagi með því að koma sjónarmiðum félagsins um skipan og hlutverk fagráðanna á framfæri við heilbrigðisráðherra og forstjóra viðeigandi heilbrigðisstofnana.
  • Í öðru lagi að virkja trúnaðarmenn í samstarfi við forystu félagsins í að stuðla að því að ráðist verði í stofnun fagráðanna innan viðkomandi stofnana sem allra fyrst eftir að ráðherra hefur gefið út reglugerð um fagráðin.
  • Í þriðja lagi að tryggja jákvæða og sterka innkomu sjúkraliða á nýjan vettvang og móta samræmda stefnu um þau málefni sem sjúkraliðar telja á grundvelli faglegrar reynslu til að bæta gæða hjúkrunarþjónustunnar.

Samþykkt þann 10. september 2020.

Til baka