Fréttir

Eru stjórnendur vandanum vaxnir?

10 jan. 2021

Því miður þá hefur borið á því að stjórnendur og millistjórnendur heilbrigðisþjónustunnar fara í alltof miklu mæli með villandi upplýsingar og rangfærslur í kynningum sínum á styttingu vinnuvikunar – betri vinnutíma. Hjá nokkrum vinnuveitendum hafa stjórnendur fullyrt að starfsfólk hafi afsalað sér matar og kaffitíma, vetraleyfin verði felld niður og að sjúkraliðar muni lækka í launum. Það ætti að vera hverjum stjórnanda ljóst að kjaramálanefnd stéttarfélaga sem fer með samningsumboð hefur þá skyldu að gæta hagsmuna félagsmanna. Eftir ítrekaðar ábendingar frá áhyggjufullum sjúkraliðum um rangfærslur í kynningum stjórnenda hefur óneitanlega safnast upp hjá mér óþol gagnvart þeirri þvælu sem þeir bera á borð fyrir sjúkraliða.

Neysluhlé

Varðandi kaffitíma, matar eða neysluhlé, þá var ekki samið um að starfsmenn afsöluðu rétti sínum til að nærast, heldur er því einmitt öfugt farið og réttur þeirra betur tryggður með því setja fram skýrara ákvæði um neysluhlé. Í kjarasamningi er ákvæðið svohljóðandi: „Starfsmenn í vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni þegar því verður við komið starfsins vegna.“ Áður var það „ef því verður viðkomið“. Með þessari breytingu er réttur starfsmanna til að nærast og taka kaffipásur alveg skýr.

Samingarnir gera ekki ráð fyrir því að starfsmenn hlaupi hraðar, heldur er gert ráð fyrir að bæta mönnun með því að bjóða fólki hærra starfshlutfall og ráða í stöður ef það myndast mönnunargat. Þessi kerfisbreyting mun vera vinnuveitendum kostnaðarsöm, og það er gert ráð fyrir auknum kostnaði í fjárlögum vegna breytinga á vaktavinnufyrirkomulagi í tengslum við kjarasamninga. Þær 25 mínútur á yfirvinnukaup fyrir hverja vakt óháð lengd vaktar verður fellt niður og tekur launamyndun vaktavinnufólks til annarra þátta en áður.

Vetrarleyfi

Samkomulag náðist um styttingu vinnuvikunar fyrir vaktavinnufólk í 36 stundir á viku í allt að 32 stundir á viku. Útfærsla á þessari kerfisbreytingu er með allt öðru sniði en hjá dagvinnufólki og taka aðrir þættir kjarasamnings því einnig breytingum, þ.m.t. vetrarleyfi. Breytingin sem gerð var í samningunum snýst um það að vinnuskil dagvinnumanna og vaktavinnumanna eru jöfn. Þannig að þeir frídagar sem koma á hverju ári fyrir sig verða eins margir hjá fólki í dagvinnu og í vaktavinnu. Þessi breyting tekur ekki gildi fyrr en 1. maí 2021. Þannig að þeir frídagar sem hafa safnast upp á árinu 2020 þarf að taka út í fríi á þessu ári, og þeir dagar sem safnast upp til 1.maí 2021, þarf einnig að taka út. Síðan þegar nýja kerfið kemur á, er meginreglan sú að taka eigi frídaganna út innan launatímabils eða mánaðar. Hins vegar er ljóst að það mun alltaf vera erfitt að koma því við hjá heilbrigðisstarfsfólki og verður því hægt að leggja fram beiðni um að safna frídögunum saman til að geta tekið þá út síðar, líkt og verið hefur í gegnum árin. Það eina sem breytist í þessu er að það þarf að óska eftir að safna frídögunum. Stjórnendur munu vafalaust verða við því ef það hentar starfseminni. Varðandi bætinguna, þá fellur hún niður, enda er markmið samningana að vinna minna.

Ný launamyndun

Kjarasamningarnir taka mið af því að 80% starf sé metið sem 100% og að fólk vinni jafnar og álagið dreifist. Fullyrðingar um að sjúkraliðar muni lækka í launum er vægast sagt sorgleg nálgun í kynningunum um þessar sögulegu breytingar á vinnutíma hjá vaktavinnufólki. Allflestir sjúkraliðar eru í hlutastarfi og þeir sem vinna á vöktum, til dæmis í 70% starfi, og ætla áfram að vinna jafnmikið og þeir gera núna hækka í launum í samræmi við hækkað starfshlutfall. Það er starfshlutfallið sem breytist en ekki vinnuframlagið, nema viðkomandi ákveði að auka eða minnka við sig vinnu.

Réttar upplýsingar

Það er mjög mikilvægt að kynningar sem stjórnendur bera á borð fyrir sjúkraliða séu settar fram með réttum upplýsingum. Til að ná utan um innihald þessara kerfisbreytinga hefur mikið af fræðslu- og kynningarefni verið sett á heimasíðuna betrivinnutimi.is Þar má meðal annars finna námskeið ætlað starfsfólki. Af gefnu tilefni eru sjúkraliðar hvattir til að skrái sig á klukkustunda grunnnámskeið. Ef eftirspurn á námskeiðin er meira en framboð, verður námskeiðunum fjölgað.

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka