Fréttir

(COVID-19) kórónaveira – upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsfólk og viðbragðsaðila

28 feb. 2020

Embætti landlæknis hefur tekið saman upplýsingarnar er snúa að því hvernig draga megi úr hættu á smiti vegna kórónaveiru (COVID-19), hver einkennin eru og hvernig eigi að bregðast við komi upp smit. Á vef landlæknis er sérstök síða með upplýsingum fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sem við hvetjum ykkur til að kynna ykkur. Þar er að finna upplýsingar um sýkingavarnir, leiðbeiningar vegna gruns um sýkingu og leiðbeiningar við sjúkraflutninga og viðbragðsáætlanir.

  • Handþvottur er mikilvægari nú en áður. Sömuleiðis er mælt með að fólk hósti í handakrikann á sér og að spritti verði komið fyrir sem víðast. Andlitsgrímur veita falskt öryggi nema þær séu notaðar réttar.
  • Veiran hagar sér í mörgu eins og inflúensa þar sem einkenni og smitleiðir eru svipaðar. 
  • Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu – hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Kórónaveiran getur einnig valdið alvarlegum veikindum á borð við öndunarfærasýkingar og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar.
  • Hjá flestum er veiran/inflúensan fljót að ganga yfir en samt sem áður geta viðkomandi smitað lengi eftir og þurfa þeir sem veikjast að vera í sóttkví.
  • Allir þeir sem eru að koma frá Kína ættu að vera í sóttkví í 2 vikur. Með sóttkví í slíkum tilfella er átt við að vera heima og ekki í beinum samskiptum við fólk.
  • Í tengslum við nýjustu fréttir frá Tenerife hefur sóttvarnarlæknir og landlæknisembættið ekki ákveðið að vara við ferðum þangað og þeir einir sem dvöldu á tilteknu hóteli eiga að vera í 2ja vikna sóttkví við komuna til Íslands. Viðbragðsáætlanir hér á landi hafa ekki breyst.
  • Almennur skilningur er sá að þeir sem þurfa að vera í sóttkví eiga rétt á veikindaleyfi þegar læknisvottorð liggur til grundvallar.

Á vef landlæknis er mikið til af efni um kórónaveiruna (COVID-19).

 

Til baka