Fréttir

BSRB skoðar aðkomu að íbúðafélagi

14 mar. 2016

 Formannaráðsfundur BSRB 24.2.2016

 

Stjórn BSRB hefur nú til skoðunar hvort bandalagið mun koma að stofnun íbúðafélags ásamt Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).Félagið mun verða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarsjónarmiða. Skýrast mun á næstu vikum hvort, og þá hvernig, BSRB mun taka þátt í stofnun íbúðafélagsins.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, kynnti áform um stofnun íbúðafélagsins við hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis ASÍ um helgina. Félagið mun hafa það hlutverk að byggja fjölda leiguíbúða og leigja lágtekjufólki á viðráðanlegu verði. Skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg um helgina um að borgin sjái félaginu fyrir lóðum fyrir 1.000 íbúðir á næstu fjórum árum.

Mikil þörf segir formaður BSRB „

Þetta er mikilvægt mál sem stjórn BSRB hefur verið með til skoðunar. Við þurfum að fara vandlega yfir alla þætti málsins áður en við tökum ákvörðun um aðkomu bandalagsins að málinu, en þörfin fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægstu hópana ætti að vera öllum ljós,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Íbúðafélagið verður sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð, og verður það rekið án markmiða um hagnað. Áður en hægt verður að stofna íbúðafélagið þarf Alþingi að samþykkja frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Vonir standa til þess að það verði gert fyrir lok vorþings.

Tekjulágir fái öruggt leiguhúsnæði

Formannaráð BSRB hvetur ríkisstjórnina og Alþingi til að samþykkja aðgerðir í húsnæðismálum sem byggja a frumvörpum ráðherra. Ráðið ályktaði á fundi sínum nýlega að leysa verði mikinn vanda á húsnæðismarkaði með heildstæðum og markvissum hætti, eins og bandalagið hafi margoft bent á.

„BSRB hefur margítrekað bent á að auka þarf framboð öruggs leiguhúsnæðis fyrir fjölskyldur auk þess sem brýn nauðsyn er á að draga verulega úr húsnæðiskostnaði launafólks,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins. Ráðið telur mikilvægt að tekjulágum fjölskyldum verði veittur aðgangur að öruggu leiguhúsnæði með viðráðanlegri leigu.

„Ég treysti því að stjórnvöld standi við sínar yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga og mér heyrist á öllu að það sé sæmileg sátt um þetta frumvarp og þess vegna ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að Alþingi klári þetta frumvarp,“ sagði Gylfi í samtali við MBL um helgina.

BSRB leggur áherslu á blandaða byggð

Elín Björg segir að ýmsu að huga áður en félagið verði stofnað. „BSRB mun leggja áherslu á að þessar nýju íbúðir verði í blandaðri byggð, þannig að ekki verði um það að ræða að byggðar verði upp blokkir þar sem eingöngu tekjulágir leigja. Það er mikilvægt að útfæra þetta nánar til að tryggja blöndun. Félagar okkar í ASÍ eru okkur algerlega sammála, en við þurfum í sameiningu að finna réttu leiðina til að byggðin verði sannarlega blönduð.“

Gylfi sagði í samtölum við fjölmiðla um helgina að ASÍ muni leggja íbúðafélaginu til 10 milljónir króna í stofnfé. Í tilefni af aldar afmæli ASÍ gaf BSRB hreyfingunni eina milljón króna í stofnfé íbúðafélagsins. Ákveði stjórn BSRB að taka þátt í stofnun íbúðafélagsins með ASÍ mun bandalagið leggja til ákveðið hlutfall af stofnfé íbúðafélagsins til viðbótar við þessa gjöf.

Einnig er áformað að aðildarfélögin veiti íbúðafélaginu víkjandi lán upp á allt að 100 milljónir króna til að tryggja rekstrarfjármögnun félagsins fyrstu fimm árin, þar til reksturinn verður orðinn nægilega mikill að umfangi til að hann verði sjálfbær.

Formannaráð BSRB ályktar

Formannaráð BSRB hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna húsnæðismála:

Ályktun formannaráðs BSRB vegna húsnæðismála

Formannaráð BSRB hvetur ríkisstjórn og Alþingi til að samþykkja sem fyrst aðgerðir í húsnæðismálum sem byggja á frumvörpum félags- og húsnæðismálaráðherra sem ætlað er að ráða bót á verulegum vanda á húsnæðismarkaði. BSRB hefur margítrekað bent á að auka þarf framboð öruggs leiguhúsnæðis fyrir fjölskyldur auk þess sem brýn nauðsyn er á að draga verulega úr húsnæðiskostnaði launafólks.

Formannaráð BSRB telur mikilvægt að tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafa ekki átt kost á því sé veittur aðgangur að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu leiguverði. Þannig er mikilvægt að verulegum fjármunum verði varið til uppbyggingar á leigumarkaði þannig að hægt sé að mæta mikilli og brýnni eftirspurn. Það er grundvallaratriði að það kerfi sem byggt verður upp verði til lengri tíma sjálfbært og að leiguverð verði viðráðanlegt fyrir efnaminni leigjendur.

Þá telur formannaráð BSRB að samþykkt fyrirliggjandi frumvarps um nýtt húsnæðisbótakerfi feli í sér mikilvægt skref í átt að einu húsnæðisbótakerfi.Formannaráð BSRB bendir þó á að það hefur lengi verið baráttumál BSRB að stuðningur hins opinbera við ólík búsetuform verði jafnaður. Samræmdar húsnæðisbætur í stað vaxta- og leigubóta myndu jafna húsnæðisstuðning milli þeirra sem eiga húsnæði og þeirra sem leigja og stuðla að frekari jöfnuði fólks.

Formannaráð BSRB áréttar að öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði er ekki eingöngu brýnt kjaramál launafólks. Það er einnig lykilatriði í að byggja upp fjölskylduvænt samfélag þar sem þarfir, vellíðan og öryggi launafólks og fjölskyldna þeirra eru lagðar til grundvallar í allri stefnumótun.

Til baka