Fréttir

Bakvarðasveitin: Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á útkallslista

21 sep. 2020

Heilbrigðisyfirvöld óska eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins í vor þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar. Þetta fyrirkomulag gaf góða raun og gerði heilbrigðisstofnunum kleift að manna í stöður með hraði þegar á þurfti að halda. Í ljósi þess hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu daga er bakvarðasveitin nú endurvakin og er hér með óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir.

Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar nær einungis til starfa hjá opinberum heilbrigðisstofnunum.

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu og jafnvel í fullt starf eða hlutastarf í allt að tvo mánuði ef hentar. Laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun. Skráningarformið er aðgengilegt á vef heilbrigðisráðuneytisins, www.hrn.is og þar er einnig að finna spurt og svarað um bakvarðarsveitina.

Til baka