Fréttir

Atkvæðagreiðslu lýkur á mánudagskvöld!

7 maí. 2020

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning Sjúkraliðafélagsins við Reykjavíkurborg hefst í dag og lýkur á miðnætti á mánudag. Vel sóttur og efnisríkur kynningarfundur var haldinn um samningana fyrr í þessari viku þar sem við Gunnar framkvæmdastjóri fórum yfir niðurstöðuna.

Við mjög erfiðar aðstæður í miðjum faraldri náðist tímamótasamningur sem skilaði í höfn gömlu baráttumáli Sjúkraliðafélags Íslands til margra áratuga um styttingu vinnuvikunnar, með sérstakri áherslu á styttingu vinnutíma vaktavinnufólks. Um 90% félagsmanna okkar eru í vaktavinnu. Vinnuskylda þeirra fer úr 40 stundum í 36 stundir, og getur farið allt niður í 32 stundir. Stytting vinnuvikunnar er án skerðingar á launagreiðslum.

Launahækkanir voru í góðu samræmi við lífskjarasamninginn. Þær verða að meðaltali 24% á samningstímanum. Til viðbótar náðist fram heimildarákvæði um önnur laun sem tryggja álagsgreiðslur, sem taka til dæmis mið af tímabundnu álagi. Þetta gefur svigrúm til að umbuna sjúkraliðum þegar þeir takast á við erfiðari viðfangsefni en ella. Allir sjúkraliðar hjá Reykjavíkurborg munu fá 30 daga orlof í stað aldurstengdrar ávinnslu.

Að auki munu sjúkraliðar fá persónuálag vegna viðbótarmenntunar. Fyrir starfstengt nám eða námskeið verður 1,5% persónuálag greitt fyrir hverjar 60 stundir. Alls geta þrisvar sinnum 60 stundir reiknast til hækkunar og persónuálag því orðið 4,5% að hámarki. Fyrir formlegt sérnám á framhaldsskólastigi kemur 1,5% persónuálag. Fyrir hverjar 60 ECTS einingar í háskólanámi á fagsviði kemur 1,5%. Með viðbótarmenntun geta sjúkraliðar því hækkað um 6% í launum.

Atkvæðagreiðslunni lýkur á miðnætti mánudagskvöld. Ég hvet alla sjúkraliða hjá Reykjavíkurborg til að taka þátt!

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka