Áskoranir Landspítalans og vannýtt tækifæri
12 sep. 2024
Sjúkraliðar með diplómapróf af háskólastigi hafa aukna getu til að sinna fjölbreyttari og flóknari verkefnum innan heilbrigðisþjónustunnar.
Landspítalinn, stærsta heilbrigðisstofnun Íslands og um leið fjölmennasti vinnustaður landsins, glímir við alvarlegan mönnunarvanda sem hefur víðtæk áhrif á starfsemi spítalans. Skortur á starfsfólki veldur auknu álagi á bæði sjúklinga og starfsfólk. Þó að sjúkraliðar séu ómissandi í daglegri umönnun sjúklinga, er vinnuframlag þeirra oft vanmetið og þeir fá litla athygli, eins og kemur fram í nýlegri úttekt Ríkisendurskoðunar um fjármögnun og áætlanagerð Landspítalans.
Mönnunarvandi og lykilhlutverk sjúkraliða
Landspítalinn hefur lengi glímt við skort á starfsfólki, sérstaklega læknum og þeim sem vinna við hjúkrun. Í þessari stöðu gegna sjúkraliðar mikilvægu hlutverki þar sem þeir veita grunnhjúkrun og eru oft fyrsta tenging við sjúklinga. Þetta hlutverk þeirra er ekki einungis mikilvægt, heldur nauðsynlegt fyrir vellíðan og öryggi sjúklinga. Sjúkraliðar hafa þannig bein áhrif á bataferli sjúklinga. Þeir draga úr vanlíðan en einnig úr kostnaði annars staðar í kerfinu.
Þrátt fyrir þetta eru sjúkraliðar sjaldan nefndir í umræðum um lausnir á mönnunarvanda. Þeir geta létt álagi af hjúkrunarfræðingum og læknum og bætt þjónustuna og þá sérstaklega þeir sjúkraliðar sem hafa lokið diplómaprófi frá Háskólanum á Akureyri. Þessi hópur hefur dýrmæta þekkingu og færni sem enn er algerlega vannýtt á spítalanum.
Færni sjúkraliða – ónotað tækifæri
Sjúkraliðar með diplómapróf af háskólastigi hafa aukna getu til að sinna fjölbreyttari og flóknari verkefnum innan heilbrigðisþjónustunnar. Ef Landspítalinn nýtir þessa færni betur getur hann bætt þjónustustig og dregið úr álagi hjá öðrum fagstéttum. Þetta getur leitt til betri heildarþjónustu og meiri ánægju sjúklinga. Þessi nálgun í mannauðsmálum spítalans væri því eitthvað sem myndi gagnast öllum.
Það er kominn tími til að Landspítalinn viðurkenni sjúkraliða sem mikilvæga auðlind. Þeir ættu að fá meiri ábyrgð og vera viðurkenndir sem sérfræðingar á sínu sviði, sérstaklega þeir sem hafa framhaldsmenntun og reynslu af krefjandi verkefnum. Með því að nýta hæfni sjúkraliða betur má ná fram margvíslegum ávinningi:
Aukin gæði: Sjúkraliðar með framhaldsmenntun geta tekið á sig flóknari verkefni, sem bætir gæði umönnunar og eykur öryggi.
Léttir álagið: Aukið hlutverk sjúkraliða gerir hjúkrunarfræðingum, læknum og öðru fagfólki kleift að einbeita sér að sérhæfðari verkefnum.
Skilvirkni í mannauðsstjórnun: Betri nýting sjúkraliða stuðlar að skilvirkari nýtingu á mannauði spítalans og getur hjálpað til við að fylla í þau skörð sem nú eru til staðar.
Landspítalinn verður að bregðast við og endurskoða núverandi stefnu um mönnun og nýtingu mannauðs. Þetta felur í sér að þróa nýjar stöður, auka ábyrgð sjúkraliða með diplómanám, og veita þeim aukin tækifæri til að nýta hæfni sína. Að grípa til aðgerða núna getur leitt til verulegra umbóta á þjónustu spítalans og aukinnar starfsánægju.
Athyglisskortur Ríkisendurskoðunar
Það er óásættanlegt að Ríkisendurskoðun hafi ekki sérstaklega fjallað um sjúkraliða í nýlegri úttekt sinni, þrátt fyrir mikilvægi þeirra innan heilbrigðiskerfisins. Nánast tíundi hver starfsmaður Landspítalans er sjúkraliði enda er um að ræða næstfjölmennustu heilbrigðisstétt landsins.
Til að takast á við mönnunarvanda Landspítalans og bæta heildarþjónustu er nauðsynlegt að nýta betur þá þekkingu og reynslu sem sjúkraliðar búa yfir og sérstaklega þeirra sem lokið hafa diplómanámi.
Þessi skortur á umfjöllun Ríkisendurskoðunar um sjúkraliða og ónýttum tækifærum sem felast í að auka við hlut þeirra á spítalanum, getur bent til þess að ákveðnar starfsstéttir séu vanræktar í stefnumörkun og áætlunum um bætta nýtingu mannafla á Landspítala. Nú er tími til að viðurkenna sjúkraliða sem lykilauðlind fyrir skilvirkari og mannúðlegri heilbrigðisþjónustu. Við verðum að nýta hvert tækifæri til að efla þessa stétt og styrkja heilbrigðiskerfið. Þannig verður kerfið betra og ódýrara.
Gein Söndru B. Franks var fyrst birt í Morgunblaðinu