Ársskýrsla Svæðisdeild höfuðborgarsvæðisins 2021 – 2022

Síðasti aðalfundur Svæðisdeildar höfuðborgarsvæðisins var haldinn 12 apríl, í fjarfundi vegna flensu sem þá gekk. Það var aðalfundur fyrir árið 2021. Stjórnin hélt fjóra stjórnarfundi auk þess að við leystum málin á spjallinu á Facebook. Á fyrsta fundi stjórnar var ákveðið allir yrðu í sömu stöðu áfram.

Hulda Birna Frímannsdóttir, formaður
Jakobína Rut Daníelsdóttir, ritari
Ásdís Þorsteinsdóttir, gjaldkeri
Lára María Valgerðardóttir og Þórunn M. Ólafsdóttir, meðstjórnendur

Við skipulögðum rósa- og lyklaafhendingu við útskriftir sjúkraliða í vor. 31 frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og 15 frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Einnig verðum við viðstaddar útskriftir frá sömu skólum í desember næstkomandi.

Við ræddum haustferð sem síðar var ákveðið að fresta og munum við byrja strax eftir áramótin að skipuleggja haustferð 2023.

Deildin varð 30 ára á síðasta ári og ákváðum við því að slá saman aðalfundi og afmæli deildarinnar, 12. október 2022.

Við ætlum að halda nemaboð eftir áramótin og verða trúlega þeim sem útskrifuðust síðasta vor, þeim sem útskrifast um áramótin og þeim sem útskrifast í vor boðið í spjall og fræðslu um félagið. Ragnhildur B. Bolladóttir, fræðslustjóri SLFÍ, hefur óskað eftir því að vera með okkur.

Hulda Birna og Jakobína fóru með Lífeyrisdeildinni hringinn á Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Borðað var á Minni Borgum í Grímsnesi. Það er venja að það fari tveir úr stjórn með þeim í ferð og verði þeim til aðstoðar er þarf.

Í undirbúningi aðalfundar var farið yfir mönnun í stjórnum og nefndum deildarinnar. Það komu fá framboð í stjórnina þegar auglýst var eftir fólki, en með góðu samstarfi í stjórninni náðum við að fá nokkra duglega sjúkraliða í lið með okkur, enda vinna margar hendur létt verk.

Allir formenn svæðisdeilda SLFÍ eru komnir með greiðslukort frá félaginu til að greiða smærri útgjöld og það sem þarf að staðgreiða. Annars eru allir reikningar greiddir beint af af félaginu.

Við minnum á viðburðardagatal sem er inn á heimasíðu Sjúkraliðafélagsins. Þar eru settar inn upplýsingar um verðandi viðburði, sem og fræðsluefni og annað efni. Einnig er Svæðisdeild höfuðborgarsvæðis með virka Facebook síðu þar sem við setjum inn upplýsingar. Það gerum við til að minna okkur á og til að þið getið fylgst með hvað stendur til hjá okkur.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem starfað hafa fyrir deildina fyrir þeirra fórnfúsu störf.

Fyrir hönd Svæðisdeildar höfuðborgarsvæðis,
Hulda Birna Frímannsdóttir

Til baka