Ársskýrsla Suðurlandsdeildar 2021 – 2022

Ágætu sjúkraliðar!

Annað árið í röð var haldinn aðalfundur á Teams. Því sátu sjúkraliðar við tölvuskjáinn og fylgdust með. Fundurinn var auglýstur með löglegum fyrirvara, en aðsókn var dræm. Fundastjóri var kosinn Margrét Auður Óskarsdóttir. Það var formannskjör og Helga S. Sveinsdóttir bauð sig ein fram og var því endurkjörin til næstu tveggja ára. Þá áttu að ganga úr stjórn Margrét Auður Óskarsdóttir, Kolbrún Jónsdóttir og Kristín L. Guðmundsdóttir. Þær gáfu allar kost á sér áfram og voru endukjörnar. Guðbjörg S. Stefánsdóttir átti eitt ár eftir en þurfti að hætta í stjórn og var Dögg Jónsdóttir kosin í hennar stað í eitt ár.

Stjórn Suðurlandsdeildar starfsárið 2021- 2022 t.v. Kolbrún Ásta Jónsdóttir, Elínborg Telma Ágústsdóttir, Helga Sigríður Sveinsdóttir, Kristín Laxdal Guðmundsdóttir og Margrét Auður Óskarsdóttir. Á myndina vantar Dögg Jónsdóttur

Lyflækningadeildin hefur verið í skemmtinefnd en ekki fengið að spreyta sig enn vegna Covid-19. Hún var því endurkjörin.

Úr kjörstjórn gengu Þóra Bjarney Jónsdóttir og Guðbjörg  S. Stefánsdóttir. Áfram sat Dagný Ómarsdóttir og ný kom inn Kristín L. Guðmundsdóttir. Helstu verkefni kjörstjórnar eru að halda utan um trúnaðarmannakosningar í september og kosningu formanns.

Loksins var hægt að halda 1. maí hátíðarhöld. Formaður fór á nokkra undirbúningsfundi. Ágæt mæting var á fundinn í Hótel Selfoss en dræm aðsókn í kröfugönguna.

Fella þurfti niður námskeið fyrir sjúkraliða á vegum Fræðslunets Suðurlands vegna lélegrar aðsóknar. Nú er komið á daginn, eins og búist var við, að Fræðslunetið íhugar hvort það bjóði yfir höfuð upp á námskeið fyrir sjúkraliða. Ef við viljum fá þessa þjónustu í heimabyggð verðum við að sækja þessi námskeið.

Útskrifaðir frá FSU voru 7 sjúkraliðar á haustönn en engin á vorönn. 

Formaður sótti BSRB þing en það var með öðru sniði en venjulega vegna Covid-19. Einn þingdagur, 29. september 2021, var tekinn í fjarfundi þar sem kosningar voru afgreiddar. Síðan var haldið framhaldsþing dagana 24. – 25. mars 2022 á Hótel Hilton þar sem málefnavinnan var unnin.

Trúnaðarmannaráðsfundur var haldinn á Teams 21. október 2021.

Ég þakka öllum sem hafa lagt fram vinnu í þágu deildarinnar. Nú eru kjarasamningar framundan og þá eru trúnaðarmenn í lykilstöðu til að koma upplýsingum til stéttarinnar. Skrifstofan á Grensásveginum er öllum opin og þangað geta félagsmenn Sjúkraliðafélags Íslands alltaf  leitað.

Fyrir hönd stjórnar Suðurlandsdeildar,
Helga Sigríður Sveinsdóttir

Til baka