Fréttir

Andlátsfregn

1 okt. 2024

Hrefna Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi formaður lífeyrisdeildar Sjúkraliðafélags Íslands, er látin á 76. aldursári. Hrefna var fædd 17. apríl 1948 í Reykjavík. Hún var dóttir Gunnlaugs Birgis Bergmann Daníelssonar, sölustjóra, fæddur 18. maí 1931 í Reykjavík og Regínu Gunnarsdóttur, húsmóður, fædd 7. september 1929 í Reykjavík, dáin 23. apríl 1994.

Hrefna lauk sjúkraliðaprófi frá Landakoti árið 1966 og hóf störf á Landakoti sem gangastúlka sumrin 1963 til 1965. Hún starfaði sem sjúkraliði á Landakoti frá 1966 til 1970 og fór síðan til Noregs þar sem hún starfaði á Sogn og Fjordane fylkessjúkrahúsinu 1970 til 1971. Að lokinni dvöl sinni í Noregi starfaði hún á Borgarspítalanum 1971 til 1973, aftur á Landakoti 1974 til 1977, Hrafnistu 1977 til 1978, í heimahjúkrun árið 1978, Landspítalanum frá 1978, Hvítabandinu árið 1982 og á Heilsuverndarstöðinni árið 1983.

Hrefna tók einnig þátt í ýmsu félagsstarfi og tókst að skapa sterka samstöðu meðal eldri sjúkraliða. Hún tók við embætti formanns lífeyrisdeildar Sjúkraliðafélagsins af Erlu Báru Andrésardóttir og gegndi því af mikilli alúð. Undir formennsku hennar var meðal annars efnt til reglubundinna samverustunda í félagsaðstöðu sjúkraliða við Grensásveg 16, þar sem eldri sjúkraliðar komu saman, unnu handavinnu og spjölluðu um liðnar stundir.

Hrefna var heilsteyptur og kærleiksríkur einstaklingur sem verður sárt saknað af fjölskyldu, vinum og samstarfsfólki. Hún skilur eftir sig dýrmætar minningar og ómetanlegt framlag til sjúkraliðastarfsins og félagsins.

Útför Hrefnu verður frá Fossvogskirkju þann 8. október klukkan 13.00.

Til baka