Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
8 mar. 2023
8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna, er einn af þeim dögum sem mikilvægt er að halda á lofti til að vekja athygli á stöðu kvenna, um allan heim.
Á þessum degi er rétt að beina athyglinni að kynjamisrétti. Samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er jafnrétti kynja ekki aðeins grunnmannréttindi heldur nauðsynlegur grundvöllur fyrir friðsælum og sjálfbærum heimi. Við á Íslandi erum vissulega á réttri leið, en erum samt langt frá því að vera komin þangað.
Hver er staðan á Íslandi?
Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti sem þýðir að konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti. Þrátt fyrir það er staðan samt þannig að enn mælist þó nokkuð kynjabil. Hér er því enn verk að vinna. Sá óhugnaður sem kynbundið ofbeldi er, hefur enn ekki tekist að uppræta. Þá búa konur ekki einungis við kynjamisrétti, heldur einnig við óréttlátt launamisrétti.
Rétt er að minna á að atvinnuþáttaka kvenna er hvergi í heiminum eins mikil og hér á landi. Þó eru launamyndunarkerfin þannig úr garði gerð að konur fá lægri laun en karlar fyrir sambærileg störf, því iðulega eru störf sem unnin af konum minna metin en hefðbundin karlastörf.
Á nýlegri ráðstefnu um launajafnrétti kom fram að kynbundinn launamunur á Íslandi er um 10%. Þar var bent á dæmi sem sýnir að kona með 650.000 kr. í laun á mánuði verður af tæplegri milljón á ári, sem telst vera um 45 milljónir á starfsævinni. Til viðbótar við það verða lífeyrisgreiðslur hennar lægri en ella. Ef við myndum stækka þennan hóp í 2.000 konur, sem er u.þ.b. sami fjöldi og starfandi kvenkyns sjúkraliðar á Íslandi, kemur í ljós að þessi hópur er snuðaður um tæpa 2 milljarða á ári!
Brýnt að leiðrétta lagalegt jafnrétti
Það er á forræði stjórnvalda að leiðrétta kynjamisrétti. Hins vegar er staðreyndin sú að með athafnaleysi sínu styðja stjórnvöld þetta augljósa launamisrétti. Við þessu þarf að bregðast. Það þarf að leiðrétta þennan kynbundna launamun, sem þýðir að hækka þarf laun hlutfallslega meira hjá hefðbundnum kvennastéttum. Þetta þýðir ekki að laun kvenna verði hærri en laun karla heldur einungis jafnari. Þessi leið er ekki einungis sanngjörn heldur styður hún við áform stjórnvalda um að konur og karlar búi við lagalegt jafnrétti og skilar auk þess hagkvæmri niðurstöðu fyrir samfélagið allt.