Fréttir

Áfram veginn!

7 júl. 2022

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, fundaði í dag með Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, um stöðu sjúkraliða í heilbrigðiskerfinu. Á fundinum var meðal annars farið yfir framvindu stofnanasamninga og viðhorf stjórnenda og viðsemjenda  til samningsgerðar.

Einnig var rætt um framhaldsnám fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri þar sem 20 sjúkraliðar stunda nú sérhæft nám í öldrunar-og heimahjúkrun. Bent var á mikilvægi þess að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu geri sér grein fyrir þeirri hæfni sem háskólamenntaðir sjúkraliðar muni búa yfir. Gera þurfi ráð fyrir sérhæfðu vinnuframlagi þeirra innan heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt þarf að tryggja þeim stað í nýjum stofnanasamningum, því með sjúkraliðum með diplómu á fagháskólastigi verður til ný auðlind innan heilbrigðiskerfisins. 

Þá var bent á niðurstöður nýlegrar könnunar félagsins um líðan sjúkraliða og áréttað að auka þurfi sýnileika og mikilvægi stéttarinnar innan heilbrigðiskerfisins. Sömuleiðis að tryggja þurfi betri starfskjör og starfsumhverfi svo sjúkraliðar hverfi ekki til annara starfa.

Heilbrigðisráðherra tók vel undir athugasemdir og áherslur Sjúkraliðafélagsins og lagði áherslu á að tryggja þurfi samráð og samstarf ráðuneytisins við félagið, einkum í þeim málefnum sem snúa að landsráði um menntun og mönnum í heilbrigðiskerfinu. Þá óskaði hann eftir að vera í betri og tíðari samskiptum við félagið svo unnt væri að vinna saman að þeim markmiðum sem að væri stefnt.

Til baka