Fréttir

40. föstudagspistill formanns

19 maí. 2023

Ísland varð miðdepill heimsfréttanna þessa vikuna. Nánast allir leiðtogar Evrópu voru mættir á fund Evrópuráðsins í Reykjavík. Fundurinn þótti takast vel en að þessu sinni var fókusinn á stríðið í Úkraínu. Evrópuráðið (sem er ekki það sama og Evrópusambandið) var stofnað árið 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 1950 en nú eru aðildarríki þess 46. 

Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði „að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa“. Þetta markmið er merkilegt, ekki síst fyrir okkur sem erum að berjast fyrir betra og öflugra heilbrigðiskerfi. Það er tómt mál að tala um að „efla mannleg gildi og lífsgæði“ án þess að tala um heilbrigðismálin. Þess vegna er brýnt að sjá meiri og öflugri áherslu stjórnvalda og almennings á starfskjör og vinnuaðstæður heilbrigðisstétta landsins. Heilbrigðiskerfið er lítið annað en það fólk sem þar starfar og þangað leitar. Þetta eru áhersluatriði sjúkraliða og ræðum við þessi mál hvert sinn sem við hittum fólkið sem heldur um stjórnartaumana á Íslandi.  

Niðurstaða úr atkvæðagreiðslu á nýgerðum kjarasamning félagsins við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu barst til okkar í byrjun vikunnar. En undir samtökin heyra Alzheimersamtökin, Dalbær, Eir, Fellsendi, Grundarheimilin, Hamrar, Heilsuvernd hjúkrunarheimili, Heilsuvernd Vífilsstaðir, Hornbrekka, Hrafnista, Lundur, MS setrið, Múlabær/Hlíðabær, Reykjalundur, Samhjálp, S.Á.Á., Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Sóltún (Öldungur), Sólvangur (Sóltún öldrunarþjónusta) og Vigdísarholt (Seltjörn, Skjólgarður, Sunnuhlíð).  

Samningur við SFV var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða

Kjarasamningurinn var samþykktur með 75.98% greiddra atkvæða. Í kjölfar kjarasamnings gekk Heilsustofnun NLFÍ til liðs við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, og er hún því aðili að þessum kjarasamningi. Þá var fundað með fulltrúum Skálatúns um gerð á nýjum/uppfærðum samningi og verður áfram unnið að gerð hans.  

Annars fór vikan meðal annars í undirbúning fyrir fulltrúaþingið sem haldið verður í næstu viku. Fundað var með félagsstjórn sem fer með æðsta vald félagsins á milli þinga. Þar var fjallað um starfsemi ársins, rekstur félagsins og sjóða þess.  

Orlofsmálin voru einnig í brennidepli. Félagið leggur mikla áherslu á að styrkja Orlofsheimilasjóð og fjölga orlofskostum. Viðgerðir og endurbætur eru í fullum gangi fyrir útleigu sumarsins. Það er von mín að sjúkraliðar og fjölskyldur þerra njóti vel í hinum fjölbreyttu orlofshúsum félagsins í sumar.   

Góða helgi! 

Til baka