Fréttir

2. föstudagspistill formanns

26 ágú. 2022

Fyrsti föstudagspistillinn féll í góðan jarðveg og augljóst að sjúkraliða þyrstir í fréttir af starfinu og því sem við erum að gera hverju sinni á skrifstofunni. Af því tilefni vil ég sérstaklega hvetja ykkur til að hafa samband eða jafnvel kíkja til okkar hér á Grensásveg 16 í kaffi og spjall. Það er alltaf gott og áhugavert að heyra í ykkur.
Sem endranær erum við að fá talsverðar fyrirspurnir um fræðslu- og orlofsmál. Þá hefur nokkur ásókn verið fræðslusjóði félagsins, en þeir sjóðir styrka nám, símenntunarnámskeið og námsferðir sjúkraliða. Þá má geta þess að árlega eru á bilinu 600 til 700 umsóknir afgreiddar til félagsmanna.

Sem endranær erum við að fá talsverðar fyrirspurnir um fræðslu- og orlofsmál. Þá hefur nokkur ásókn verið fræðslusjóði félagsins, en þeir sjóðir styrka nám, símenntunarnámskeið og námsferðir sjúkraliða. Þá má geta þess að árlega eru á bilinu 600 til 700 umsóknir afgreiddar til félagsmanna.

Sjúkraliðar á landsbyggðinni hafa verið í nánum samskiptum við skrifstofuna vegna útfærslu heilbrigðisstofnana á nýja stofnanasamningi okkar. Ágreiningur er um túlkun á nokkrum ákvæðum samningsins. Lögmaður félagsins er með málið til skoðunar og ákvörðun um næstu skref verður tekin á næstu dögum.

Þá erum við að innleiða nýtt gæðakerfi og skrifa gæðahandbók. Félagið leggur metnað sinn í að veita góða og skilvirka þjónustu. Við viljum að viðmót félagsins einkennist af sanngirni, háttvísi og fagmennsku. Með þróun gæðamála og innleiðingu gæðahandbókar er leitast við að hafa ávallt góða yfirsýn yfir verkefni félagsins.

Sjúkraliðafélagið er undir regnhlíf BSRB. Í vikunni var haldinn áhugaverður fundur á þeirra vegum um lífeyrismál. Bent var á að auknar lífslíkur landsmanna geti haft neikvæð áhrif á stöðu lífeyrissjóða. Á fundinum var því rætt um mögulegar leiðir sem hægt væri að fara til að vernda lífeyrisréttindi sjóðfélaga.

Stóra málið framundan er vitaskuld undirbúningur kjarasamninga. Í kjölfar birtinga á tekjum landsmanna hefur verið aukin umræða um vaxandi ójöfnuð í samfélaginu. Samkvæmt ASÍ hefur ójöfnuður á Íslandi verið að aukast. Samhliða því eru íslenskir launþegar nú að upplifa kaupmáttarrýrnun, þá fyrstu í langan tíma. Verðbólgan hækkar bæði verð á nauðsynjavörum og lánin okkar. Þá hækkaði Seðlabankinn vexti í vikunni, en vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Næstu kjarasamningar okkar munu því meðal annars snúast um að verja kaupmátt sjúkraliða, en kröfugerð félagsins er í vinnslu.  

Góða helgi!

Til baka