Fréttir

1. föstudagspistill formanns

19 ágú. 2022

Brátt fara hjól samfélagsins að snúast sinn vanagang að nýju eftir frekar hryssingslegt sumar víðast hvar. Sjúkraliðar hafa sem fyrr staðið vaktina í krefjandi vinnulotum og höfum við á skrifstofunni ekki farið varhluta af titringi í heilbrigðiskerfinu vegna skorts á sjúkraliðum. Það hefur mikið mætt á sjúkraliðastéttinni enda gegnir hún lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustunni. Ég er bæði stolt og þakklát fyrir að tilheyra þessari mikilvægu heilbrigðisstétt.
Ýmis verkefni fara daglega í gegnum skrifstofu félagsins og hef ég áhuga á að segja frá því helsta í reglubundnum föstudagspistlum.

Í frétt Ríkisútvarpsins í vikunni var vísað í umsögn Sjúkraliðafélagsins um fyrirhugaða hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks þar sem m.a. segir að: „frumvarpið leysi ekki mönnunarvandann því ekki verði komist hjá því að bæta kjör, aðstæður og aðbúnað, það sé bleiki fíllinn í stofunni“, sjá hér Kjör aðstæður og aðbúnaður eru fíllinn í stofunni. Hér má einnig finna viðtal sem tekið var við mig um málið fyrr í sumar, sjá hér Örþrifaráð og vanmat á stöðunni.

Í vikunni birti ég einnig blaðagrein um að heilbrigðiskerfið, sjá hér Heilbrigðiskerfið – ekkert án okkar. Þar velti ég m.a. upp á þeirri hugmynd að Íslendingar verji „hernaðarhlufalli“ annarra þjóða í heilbrigðiskerfið í staðinn. Það sem ég á við með því er, – að meðaltali verja aðrar Evrópuþjóðir nú um 1,5% af landsframleiðslu sinni í hernað, nokkuð sem við erum sem betur fer laus við. Slíkt hlutfall á Íslandi væri um 50 milljarðar kr. Það eru fjármunir sem íslenska heilbrigðiskerfið gæti svo sannarlega nýtt sér. Til að setja þá tölu í samhengi þá kosta allar heilsugæslur landsins um 35 milljarða kr.

Ég vil líka nota tækifærið og minna á tvær aðrar blaðagreinar sem ég skrifaði í vor og í sumar. Önnur var um „kvenna-kjarasamninga“, sjá hér Kvenna-kjarasamningar, en hin var um hvað ríkið væri að fá mikið til baka við sérhverja launahækkun sem það stendur að, sjá hér Sextíu prósenta afsláttur af hverri krónu. Þá höfum við bent á að það sé hagkvæmara að hækka laun kvenna en karla, og um það var fjallaði á mbl.is, sjá hér Hagkvæmara að hækka laun kvenna en karla.

Starfsfólkið á skrifstofunni hefur staðið í ströngu og saman fórum við í gegnum talsverðar breytingar á húsnæðinu hér við Grensásveg, ásamt því að innleiða nýtt tölvu- og hugbúnaðarkerfi. Þá bættist liðsauki í starfsmannahópinn þegar Ágúst Ólafur Ágústsson, hagfræðingur og lögfræðingur, var ráðinn í hlutastarf og verður hann okkur innan handar í næstu kjaraviðræðunum. Við höfum nýtt tímann og höfum aflað gagna sem sýna fram á að vel sé hægt að gera betur þegar kemur að kjörum sjúkraliða og aðstæðum heilbrigðisstarfsfólks.

Þá hafa orlofsmálin verið ofarlega í umræðunni og mikið er um fyrirspurnir frá félagsmönnum, bæði í gegnum síma og tölvupósta. Almennt eru sjúkraliðar ánægðir með orlofskostina en sumstaðar má gera betur. Allar ábendingar eru vel þegnar svo hægt sé að bregðast við þeim með viðunandi hætti.

Útgáfan á tímaritinu okkar „Sjúkraliðinn“ sem að jafnaði kemur út í júní, kom út í júlí að þessu sinni, og einungis á rafrænu formi. Stefnt er að því að blaðið verði á prenti og sent til þeirra félagsmanna sem það vilja. Nú þegar er undirbúningur hafinn fyrir næsta tölublað. 

Félagið leggur mikla áherslu að sjúkraliðar geti nýtt sér þau símenntunartækifæri sem í boði eru, og geti þar með einnig bætt kjör sín. Nýverið var opnað fyrir skráningu á námskeið haustannar Framvegis og hvetjum við félagsmenn til að nýta sér heimildir fræðslusjóðanna.

Í sumar greindum við einnig nýja könnun um líðan sjúkraliða sem ég vil hvetja alla sjúkraliða til að kynna sér. Margt áhugavert kemur þar fram.

Önnur mál sem ætíð berast okkur eru hin ýmsu lögfræðileg álitamál sem félagar okkar þurfa svör við. Að undanförnu hefur t.d. verið ágreiningur milli okkar og einstakra heilbrigðisstofnana um túlkun nýrra stofnanasamninga og þarf að leiða þann ágreining til lykta. Það er alveg kristalskýrt í okkar huga að uppfærsla stofnanasamninga á ekki að leiða til kjararýrnunar fyrir neinn. 

Að lokum er rétt að upplýsa það að við óskuðum eftir fundi með forsætisráðherra til að ræða m.a. stöðu sjúkraliða, ekki síst í ljósi jafnréttismála. Sá fundur verður síðar í mánuðinum. Fyrr í sumar fundaði ég með heilbrigðisráðherra og þar á undan með félagsmálaráðherra. Við reynum reglulega að eiga milliliðalaus samtöl með stjórnmála- og forstöðumönnum til að ræða um sjúkraliðaséttina okkar góðu.

Góða helgi!

Til baka