Fréttir

Yfirlýsing kvenna í heilbrigðiskerfinu #metoo

15 des. 2017

646F8660777839DCDAF65D197E666D8D07AE7E4B97F1061190458247F86BA943 713x0

 

Yfirlýsing undirrituð af 627 konum sem starfa í heilbrigðisþjónustu ásamt 53 frásögnum kvenna af kynbundinni mismunun og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi.

Konur í heilbrigðisþjónustu krefjast þess að heilbrigðisyfirvöld landsins, stéttarfélög, fyrirtæki og stofnanir á heilbrigðissviði viðurkenni vandann og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og kynbundinni mismunun ef þær eru ekki nú þegar til staðar þar sem þolendum er tryggður stuðningur.

Farið er fram á að gerð sé áætlun um aðgerðir og úrbætur þar sem meðal annars verði farið yfir ferli umkvartana og starfsfólki og stjórnendum veitt markviss fræðsla um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og mismununar og þjálfun í því hvernig vinna eigi úr umkvörtunum. Mikilvægt er að líta heildstætt á vandamálið og nálgast það lausnamiðað og faglega til að tryggja sem farsælust samskipti vinnustaðar, starfsfólks og skjólstæðinga.

Með fræðslu og faglegum vinnubrögðum er hagsmuna allra gætt.

Við erum hættar að þegja til að halda friðinn, við segjum okkar sögur og krefjumst úrbóta.

Yfirlýsingin 

Yfirlýsing kvenna í heilbrigðiskerfinu #metoo Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á sér stað innan heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og annarsstaðar í samfélaginu. Meðfylgjandi eru 53 frásagnir kvenna sem starfa í heilbrigðisþjónustu af kynbundinni mismunun og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi. Ljóst er að kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun er vandamál í heilbrigðisþjónustu á Íslandi líkt og á öðrum stöðum í samfélaginu. Vandann má bæði finna í framkomu samstarfsmanna sem og þeirra skjólstæðinga sem nota þjónustuna. Fram hefur komið að engin heilbrigðisstofnun í landinu er laus við þessi vandamál og því þarf að taka á þeim tafarlaust. Konur eiga skilið vinnufrið, að lifa og starfa í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga í sínum störfum. Birtingarmyndirnar eru fjölmargar og kemur áreitnin alls staðar að úr kerfinu; frá kennurum, stjónendum, samstarfsmönnum og skjólstæðingum. Margar frásagnanna snúast um að mörk um eðlileg samskipti eru markvisst ekki virt og hefst það nánast um leið og konur stíga fæti inn í heilbrigðiskerfið sem nemendur. Konum sem lenda í áreitni hefur verið sagt að harka af sér og venjast aðstæðum, sumum jafnvel sagtað þegja eða þeim refsað þegar þær hafa stigið fram og sagt frá. Konum er iðulega sýnt í orði og á borði að þær séu ekki jafnar körlum. Ítrekað eru þær hundsaðar í faglegum samræðum, lítið gert úr fagþekkingu þeirra og vitsmunum og þær gjarnan hlutgerðar og ýtt til hliðar í sínum störfum.Öll eigum við rétt á faglegri heilbrigðisþjónustu og konur í heilbrigðiskerfinu sinna sínu starfi af heilindum og fagmennsku. Þær gera sér fulla grein fyrir því hversu viðkvæmur hópur skjólstæðingar þeirra er og sýna því aðgát og virðingu. Frásagnir kvenna sem starfa í heilbrigðisþjónustu sýna svart á hvítu að breytinga er þörf og það strax.Konur eiga ekki að þurfa að hvísla varnarorðum að hver annarri um það hvernig hægt sé að forðast kynferðislega áreini eða mismunun eða þegja starfsöryggis síns vegna. Konur í heilbrigðisþjónustu skila hér með skömminni þangað sem hún á heima og krefjast þess að heilbrigðisyfirvöld landsins, stéttarfélög, fyrirtæki og stofnanir á heilbrigðissviði viðurkenni vandann og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlunum gegn kynbundnu ofbeldi og kynbundinni mismunun ef þær eru ekki nú þegar til staðar. Farið er fram á að þolendum kynferðisofbeldis og kynbundinnar mismununar innan heilbrigiðisþjónustunnar sé veittur stuðningur við að vinna úr reynslu sinni og fái aðstoð frá viðeigandi aðilum við að færa sín mál í rétt ferli. Taka ber mark á þolendum og málum verður að vísa í réttan faglegan farveg. Það mun stuðla að aukinni fagmennsku ásamt því að bæta hag starfsmanna sem og skjólstæðinga. Farið er fram á að gerð sé áætlun um aðgerðir og úrbætur þar sem meðal annars verði farið yfir ferli umkvartana og starfsfólki og stjórnendum veitt markviss fræðsla um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og mismununar og þjálfun í því hvernig vinna eigi úr umkvörtunum. Mikilvægt er að líta heildstætt á vandamálið og nálgast það lausnamiðað og faglega til að tryggja sem farsælust samskipti vinnustaðar, starfsfólks og skjólstæðinga.Með fræðslu og faglegum vinnubrögðum er hagsmuna allra gætt. Við erum hættar að þegja til að halda friðinn, við segjum okkar sögur og krefjumst úrbóta. #konurtala #viðerumgosið

Til baka