Um SLFÍ

Sjúkraliðafélag Íslands var stofnað sem fagfélag árið 1966. Á árinu 1991 var það stofnað sem stéttarfélag fyrir tilstuðlan Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns félagsins en hún sinnti formennsku frá árinu 1988 til 2018. Meginhlutverk félagsins er að efla samheldni sjúkraliða og gæta að hagsmunum sjúkraliðastéttarinnar í hvívetna.

Helstu þættir í starfsemi Sjúkraliðafélags Íslands er að tryggja réttindi sjúkraliða og standa vörð um kjaramál þeirra. Hvetja til samstöðu félagsmanna m.a. með útgáfustarfsemi, fræðslufundum, ferðalögum og annarri félagsstarfsemi auk þess að styðja sjúkraliða til að viðhalda og bæta við menntun sína og efla samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir.

Sjúkraliðar starfa bæði við almenna og sérhæfða umönnun sjúklinga og við þau hjúkrunarstörf sem þeir hafa menntun og faglega færni til að sinna. Sjúkraliðar vinna iðulega á hjúkrunarsviði og í samstarfi við hjúkrunarfræðinga. Sjúkraliðar tileinka sér þekkingu á ákveðnu sérsviði hjúkrunar og taka þátt í hjúkrun og við að aðstoða og leiðbeina sjúklingum í athöfnum daglegs lífs. Þeir þurfa einnig að hafa eftirlit með og fyrirbyggja fylgikvilla sem geta komið upp í kjölfar rúmlegu sem og að leiðbeina sjúklingum við endurhæfingu. Einnig leiðbeina þeir aðstoðarfólki við aðhlynningu og aðstoða við aðlögun nýrra starfsmanna þegar það á við.

Sjúkraliðar starfa innan heilbrigðiskerfisins, á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, dvalar- og hjúkrunarheimilum auk sambýlum fyrir fatlaða, svo að dæmi séu tekin. Atvinnumöguleikar sjúkraliða eru góðir enda vaxandi þörf fyrir þjónustu sjúkraliða með hækkandi lífaldri fólks og vaxandi tíðni á lífstílstengdum sjúkdómum.

Til baka